Þessi dularfulla og stórskemmtilega menningarveisla verður um allt Austurland dagana 28. október til 1. nóvember nk.
Þessi dularfulla og stórskemmtilega menningarveisla verður um allt Austurland dagana 28. október til 1. nóvember nk.
Dagar myrkurs eru vetrarhátíð sem fagnar í senn myrkrinu og ljósinu með fjölda viðburða til samveru og notalegra stunda við kertaljós. Markmiðið er að láta hvítu ljósin loga, tákn friðar og kærleika, þar til litrík ljós aðventunnar taka við.
Þegar dagarnir styttast, skuggar lengjast, fara vættir á kreik, draugar skríða úr skúmaskotum, álfar dansa, og stjörnur og norðurljós lýsa næturhimininn – þá er einnig kominn tími til að rifja upp gamlar sögur og sagnir eða leyfa rómantíkinni að dafna í myrkrinu.
Á Dögum myrkurs er því góður tími til að heimsækja söfn og sýningar, sundlaugar og bókasöfn sem öll taka vel á móti gestum með upplýsandi viðburðum tengdum jafnt myrkrinu sem ljósinu. Þá bjóða verslanir og þjónustuaðilar jafna upp á freistandi tilboð á vörum, veitingum og gistingu í tilefni daganna myrku.
Kvöldgöngur og kertafleytingar, sögustundir, markaðir, listsýningar og ljóðalestur. Viðburðirnir hafa verið jafn fjölbreyttir og þeir eru margir. Tónlist og myndlist er einnig í öndvegi, hlaðborð og þjóðlegir réttir, draugagangur og afturgöngur, bílabíó, sviðamessur, myrkra- og grímuböll, stjörnur og norðurljós.
Dagar myrkurs voru haldnir í fyrsta sinn í nóvember árið 2000. Verkefnið hefur verið skipulagt með svipuðum hætti frá upphafi og er í dag hluti af markaðsstarfi Austurbrúar í samstarfi við sveitarfélög og fyrirtæki á Austurlandi.
Fjallað verður ítarlega um einstaka viðburði á Dögum myrkurst á viðburðadagatali Fjarðabyggðar á fjardabyggd.is og visitfjardabyggd.is.
Nánari upplýsingar um Daga myrkurs veitir Helga Guðrún Jónasdóttir, markaðs- og upplýsingafulltrúi í 892 9928 eða á helga.g.jonasdottir@fjardabyggd.is.