mobile navigation trigger mobile search trigger
22.09.2015

Drög að tillögum að matsáætlun umhverfisáhrifa vegna ofanflóðavarna í Norðfirði

Til að verja byggð í Neskaupstað gegn ofanflóðum, hefur Fjarðabyggð hafið undirbúning ofanflóðavarna í Norðfirði undir Nesgili og Bakkagili annars vegar og Urðarbotni og Sniðgili hins vegar. Um tvær aðskildar framkvæmdir er að ræða.

Fjarðabyggð hefur falið verkfræðistofunni EFLU að hafa umsjón með mati á umhverfisáhrifum fyrir báðar framkvæmdirnar. Mat á umhverfisáhrifum er unnið samkvæmt lögum nr. 106/2000 og reglugerð nr. 660/2015, en framkvæmdirnar eru matsskyldar samkvæmt tölulið 2.01 í 1. viðauka laganna, vegna þess að raskað svæði vegna efnistöku og frágangs framkvæmdsvæðanna er talið geta farið yfir 50.000 m2 og rúmmál efnis yfir 150.000 m3.

Mati á umhverfisáhrifum framkvæmdanna er ætlað að kanna nánar umhverfisáhrif varnarvirkjanna og leggja mat á kosti um hönnun og útfærslur þeirra. Mat á umhverfisáhrifum beggja varnarvirkjanna verða unnin samhliða.

Drög að tillögum að matsáætlunum eru birt til kynningar hér á vef Fjarðabyggðar og á vef EFLU verkfræðistofu, www.efla.is, frá 23. september til og með 7. október 2015. Nálgast má drögin að tillögunum sem pdf skjöl hér að neðan.

Allir hafa rétt til að kynna sér drögin að tillögunum og koma með athugasemdir, en að auglýsingatíma loknum verða drögin, ásamt þeim athugasemdum sem berast, send Skipulagsstofnun til umfjöllunar. Athugasemdafrestur rennur út 7. október nk. 

Við ábendingum og athugasemdum tekur Ólafur Árnason á netfanginu olafur.arnason@efla.is eða með pósti á: EFLA, verkfræðistofa, Vt. Ólafur Árnason, Höfðabakka 9, 110 Reykjavík. Merkja skal umslagið „Ofanflóðavarnir á Norðfirði - mat á umhverfisáhrifum”. 

Um verkefnið:
Um er að ræða ný ofanflóðamannvirki í Norðfirði, undir Nes- og Bakkagiljum annars vegar og Urðarbotni og Sniðgili hins vegar, sem koma til viðbótar við þau sem fyrir eru undir Tröllagiljum og Drangagili. Mat á umhverfisáhrifum þessara tveggja verkefna mun verða unnið samhliða, en í aðskildum skýrslum. 

Framkvæmdin undir Nesgili og Bakkagili felur í sér að reistur verði einn 550 m langur og 14-20 m hár varnargarður, og að ofan hans verði tvær raðir af 10 m háum keilum, 20 samtals, sem ætlað er að draga úr þunga flóða áður en þau lenda á garðinum. Þessum varnarvirkjum er ætlað að verja 122 íbúðarhús sem standa innan hættusvæða B og C gegn ofanflóðum úr Fjallinu. Heildarefnismagn í garða og keilur er áætlað rúmlega 400.000 m3. Efni í garðfláa fæst úr skeringum en þar sem efni í núverandi garðstæði stenst ekki kröfur um stæðni (mýrarjarðvegur og jökulurð) er lagt til að sækja um 175.000 m3 af efni úr skeringum ofan núverandi garða.

Framkvæmdin undir Urðarbotnum og Sniðgili felur í sér að reistur verði 350 m langur og 12-17 m hár garður, sem nái upp að þvergarði neðan Drangagils, að ofan hans verði reistar tvær raðir af samtals16 keilum, 8 m háum. Þeim varnarvirkjum er ætlað að verja 127 hús.

Heildarefnismagn í garða og keilur er áætlað rúmlega 150.000 m3. Efni í garðfláa fæst úr skeringum en þar sem efni í núverandi garðstæði stenst ekki kröfur um stæðni (mýrarjarðvegur og jökulurð) er lagt til að sækja um 50.000 m3 af efni úr skeringum ofan núverandi garða.

Í frummatsskýrslum verður lagt mat á áhrif framkvæmda á eftirfarandi þætti: Gróður, fuglalíf, fornleifar, vatnsvernd, samfélagsleg áhrif (efnisleg verðmæti, öryggi íbúa og skipulag; ásýnd og landslag; og útivist), umhverfisáhrif athafna á framkvæmdatíma (áhrif á hljóðvist; áhrif vegna sprenginga; áhrif vegna ofanvatns; og áhrif vegna umferðar), jarðfræði og jarðmyndanir, og náttúruminjar.

Jafnframt verður lagt mat á sameiginleg áhrif varnarvirkjanna undir Nes- og Bakkagiljum og Urðarbotni og Sniðgils.

Ofanflóðavarnir á Norðfirði_Matsáætlun_Nesgil og Bakkagil.pdf

Ofanflóðavarnir á Norðfirði_Matsáætlun_Urðarbotn og Sniðgil.pdf

Frétta og viðburðayfirlit