Morgunblaðið birtir skemmtilegt viðtal við Klöru og Telmu Ívarsdætur um lífið og tilveruna í Neskaupstað annars vegar og Reykjavík hins vegar. Báðar æfa knattspyrnu í meistarflokki auk þess sem þær stunda framhaldsnám af kappi.
Einfaldara og þægilegra fyrir austan
Enda þótt Neskaupstaður sé eitt sterkasta blakvígi landsins, þá var það engu að síður fótboltinn sem náði best til systranna. Klara er varnarsinnaður miðjumaður hjá ÍR en Telma markmaður hjá Breiðabliki. Báðar voru á samningi hjá Fjarðabyggð áður en þær fóru til Reykjavíkur.
Systurnar eru í fullu námi samhliða bæði meistaraflokks- og landsliðsæfingum. Klara, sem kláraði bæði náttúrfræðibraut og hárgreiðslu frá VA, undirbýr nú sveinspróf í hárgreiðslu og Telma les til stúdentsprófs við Menntaskólann í Kópavogi.
Þær segja muninn á Reykjavík og Neskaupstað helst vera þann að allt sé einfaldara fyrir austan og þægilegra. Reykjavík hafi síðan aðra kosti. Sem dæmi, þá séu verslanir opnar á öllum tímum sólarhringsins, sem komi sér óneitanlega vel. Síðustu æfingu dagsins er yfirleitt ekki lokið hjá þeim fyrr en um níu leytið á kvöldin.