Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri, þakkaði Serge Lambert og Alberti Eiríkssyni einstakt framlag þeirra til menningararfleifðar Frakka á Fáskrúðsfirði í móttöku sem fram fór á Frönskum dögum.
Einstakt framlag til menningararfleifðar Frakka á Fáskrúðsfirði
Albert Eiríksson stofnsetti og rak um árabil safnið Fransmenn á Íslandi á Fáskrúðsfirði, auk þess sem hann var á meðal frumkvöðla sumarhátíðarinnar Franskra daga. Sveitarfélagið hefur nú tekið við safnarekstrinum, sem sameinaður var Frökkum á Íslandsmiðum, nýja safninu sem staðsett er í Læknishúsinu, gegnt Franska spítalanum.
Framlag Serge Lambert felst í tveimur hagleikslíkönum af nafntoguðum frönskum skonnortum af Íslandsmiðum, sem hann hefur fært Fjarðabyggð að gjöf. Annað er af sjúkraskipi sem Lambert smíðaði sjálfur frá grunni og afhenti Jóni Hákoni Björnssyni, forseta bæjarstjórnar, í tilefni af opnun frönsku húsanna á Fáskrúðsfirði á síðasta ári. Það líkan er nú til sýnis í anddyri safnsins.
Það síðara færði hann svo Páli Björgvini, bæjarstjóra Fjarðabyggðar, í móttöku sem fram fór af því tilefni nú nýlega í Sjólyst, litlu húsi sem stendur við flæðarmálið á Fáskrúðsfirði og reist var á öndverðri 20. öld, þegar enn var gangur í útgerð Frakka frá bænum. Það líkan fann Lambert illa á sig komið í Frakklandi og gerði upp á eigin kostnað líkt og fyrra líkanið sem hann stóð einnig sjálfur straum af.
Páll Björgvin þakkaði báðum heiðursmönnum fyrir framlag þeirra í þágu franskrar menningararfleifðar í Fjarðabyggð. Sér væri það því mikið ánægjuefni að geta fært þeim þakklætisvott fyrir óeigingjörn störf þeirra og hlýhug í garð sveitarfélagsins.