Um kl. 04:10 í nótt var tilkynnt um eld í þaki rafstöðvarhúss Rarik í Neskaupstað. Byggingin er stór og há staðsett í hjarta bæjarins. Byggingin hýsir starfsemi Rarik, m.a. varaaflvélar, háspennubúnað og spenna. Vegna tengivinnu í aðveitustöð, var bærinn fæddur á varaafli og því voru allar vélar í gangi í stöðinni þegar eldurinn kom upp.
Eldur í rafstöðvarhúsi RARIK í Neskaupstað
Þegar að var komið logaði eldur upp úr þaki byggingarinnar, í afmörkuðu rými umhverfis reykrör frá varaaflvélum stöðvarinnar. Brunaskil virkuðu og komst eldurinn ekki í aðra hluta byggingarinnar.
Á meðan undirbúið var að koma mönnum upp á þak hússins við erfiðar aðstæður, var slökkvibyssa (monitor) á nýjum öflugum slökkvibíil slökkviliðsins notaður til að slokkva þann eld sem var sýnilegur og til að verja aðra hluta þaksins. Bíllinn er búinn mjög öflugu CAFFS froðukerfi sem hefur mikinn slökkvimátt. Þannig tókst að halda eldinum í skefjum og koma í veg fyrir að hann breiddist út á aðalþak byggingarinnar. Þegar reykkafarar við komust að þakvirkinu, voru rofin göt á klæðningar til að komast að upptökum og slökkva glóð.
Fengin var aðstoð verktökum við að moka snjó frá húsinu til að koma körfubíl að og jafnframt tæki til að sanda vettvang þar sem hálka og talsverður snjór er.
Slökkvistarfið gekk greiðlega en auk slökkviliðsmanna frá slökkvistöð Slökkviliðs Fjarðabyggðar í Neskaupstað kom aðstoð frá næstu slökkvistöð þess á Reyðarfirði. Um klukkustund tók að slökkva allan eld og drepa í glæðum en slökkvistarfi á vettvangi lauk rúmlega sex í morgun. Þar sem allt rafmagn fór af bænum við þetta þá unnu slökkviliðsmenn þarna í svarta myrkri, í snjó og hálku og aðstæður á þaki á hárri byggingu sem voru mjög varhugaverðar og erfiðar. Veður var hins vegar stillt og hjálpaði það mikið til.
Eru slökkviliðsmönnum og þeim sem komu til aðstoðar þakkað kærlega fyrir vel unnin störf við erfiðar aðstæður.