mobile navigation trigger mobile search trigger
03.05.2018

Endurheimt votlendis í Fjarðabyggð

Í dag, 2. maí kl. 10, tóku Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri Fjarðabyggðar ásamt Árna Bragasyni landgræðslustjóra og Magnúsi Þór Ásmundssyni forstjóra Fjarðaráls fyrstu skóflustunguna í endurheimt votlendis í landi Hólma á Reyðarfirði.

Endurheimt votlendis í Fjarðabyggð

Með þessu var endurheimt votlendis í landi Fjarðabyggðar formlega sett afstað. Verkefnið er á vegum Landgræðslunnar sem hlaut til þess styrk úr samfélagssjóði Alcoa (Alcoa Foundation)  og á landi sveitarfélagsins en það er aðkoma Fjarðbyggðar að verkefninu.

Þau landsvæði sem skoðuð verða í verkefninu að þessu sinni eru á Hólmum og Kollaleiru í Reyðarfirði. Í ár fara fram rannsóknir ástandi og gerð landsins og m.a. með tilliti til magns á losunar koltvísýrings. Í framhaldi af því verður á árinu 2019 hafist handa við að fylla í skurði. Ekki verður farið í endurheimt votlendis á þeim svæðum þar sem það getur haft neikvæð áhrif á nýtingu annars lands þar sem uppbygging hefur átt sér stað.

Talið er að allt að 70% af losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi komi frá framræstu og röskuðu votlendi en við það að ræsa fram mýrar rotna þær og gróðurhúsalofttegundir s.s. koltvísýringur losna út í andrúmsloftið. Endurheimt votlendis er því mikilvægur í að minnka losun gróðhúsaloftegunda.

Þann 30. apríl sl. var Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, síðan viðstaddur þegar Votlendissjóðurinn stofnaður en tilgangur hans er að stuðla að endurheimt votlendis og draga með því úr losun gróðurhúsalofttegunda. Kynning sjóðsins var haldinn á stofndegi hans að Bessastöðum og var það vel við hæfi þar sem Guðni Th Jóhannesson, forseti Íslands er verndari sjóðsins.

Votlendissjóðurinn hefur nú þegar leitað eftir samstarfi við Fjarðabyggð um að finna hentug landsvæði til endurheimtar votlendis. Fjarðabyggð hefur tekið vel í erindið og er vinna hafin við að finna hentug svæði í sveitarfélaginu til endurheimtar.Vert er að árétta að öll vinna við endurheimt verður samkvæmt leiðbeiningum Landgræðslunnar og unnin í fullri sátt við bæði landeigendur sem aðra hagsmunaaðila.

Endurheimt votlendis er mikilvægur liður okkar Íslendinga í Parísarsamningnum, samþykktur af Alþingi haustið 2016. Með því að við Íslendingar gerðumst aðilar að þessum samningi höfum við samþykkt að taka þátt í því að minnka losun gróðurhúsaloftegunda og leggja þannig okkar vigt á vogarskálarnar gegn helstu ógn mannkynsins í dag, hlýnun jarðar.

Frétta og viðburðayfirlit