Hafsteinn Hafsteinsson hlaut í dag tilnefningu til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Enginn sá hundinn enn tilnefnd til verðlauna
Áður hafði Hafsteinn hlotið tilnefningu til barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar fyrir bestu myndskreytingu í íslenskri barnabók fyrir sömu bók. Bókin Enginn sá hundinn fjallar um krakkana á Bakka sem verða himinlifandi þegar þau fá hvolp í jólagjöf. Næstu jól verða gjafirnar meira spennandi svo hundurinn verður útundan. Það fær hann til að grípa til eigin ráða. Bókin er í bundnu máli og samdi Bjarki Karlsson vísurnar. Framhald bókarinnar er þegar komið á teikniborðið hjá Hafsteini eins og kom fram hér.
Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs hafa verið veitt frá árinu 2013. Tólf bækur hljóta tilnefningu þar af tvær frá Íslandi og er tilnefningin mikill heiður. Á síðasta ári hlaut Arnar Már Arngrímsson verðlaunin fyrir Sölvasögu unglings. Verðlaunin í ár verða afhent þann 1. nóvember í Finlandiahúsinu í Helsinki.
Frábær frumraun hjá Hafsteini og verður gaman að fylgjast með þessum efnilega rithöfundi áfram.