Á morgun, laugardaginn 18. mars, fer árlegt forvarnamálþing fram í Verkmenntaskóla Austurlands.
"Erum við góð við hvort annað"?
Að málþinginu standa Verkmenntaskólinn, Foreldrafélög Nesskóla og Verkmenntaskólans ásamt Fjarðabyggð. Það stendur frá kl. 11-14.
Tilgangurinn með málþinginu er að bæta samfélagið og heilsu fólks í sveitarfélaginu. Ólíkir aðilar og stofnanir vinna saman hörðum höndum að þessu markmiði og er málþingið liður í því. Málþingin hafa verið mjög vel sótt í gegnum árin og hafa mest um 300 manns tekið þátt. Málþingið er tvískipt og fer sérstakt ungmennamálþing fram daginn áður.
Síðustu ár hefur verið fjallað um forvarnir, geðheilbrigði og í ár er fjallað um ofbeldisforvarnir. Umfjöllunarefni málþinganna hafa vakið athygli um allt land og ber að minnast á fyrirlestur Salóme Harðardóttur um einelti meðal sjómanna sem vakti gríðarlega athygli á síðasta ári.
Á þessu ári ber þingið yfirskriftina "Erum við góð við hvort annað"? og á dagskránni eru 5 erindi:
- Guðrún Katrín Jóhannesdóttir: ,,... allur bærinn setti sig í dómarasæti" - Að kæra nauðgun í litlu bæjarfélagi.
- Sæunn Guðmundsdóttir og Jóhanna G. Birnudóttir: Kynning á starfsemi Aflsins- Samtaka gegn kynferðis- og heimilisofbeldi.
- Sigþrúður Guðmundsdóttir og Hildur Guðmundsdóttir - Kvennaathvarfið: Tölum um ofbeldi.
- Hlé með veitingum
- Sanna Magdalena Mörtudóttir: Brúnir Íslendingar: Viðhorf, upplifun og að tilheyra íslensku samfélagi.
- Margrét Gauja Magnúsdóttir: ,,Ef engin gerir ekki neitt þá verður þetta bara plebbapleis" - Valdefling ungs fólk á landsbyggðinni, af hverju skiptir það máli?
Allir eru hvattir til þess að mæta og hlýða á þessi áhugaverðu erindi. Sérstaklega eru karlmenn hvattir til þess að mæta en eins og skipuleggjendur hafa bent á í viðtölum hafa þeir verið of fáir.