Fulltrúar evrópsku menningarverðlaunanna Euorpa Nostra sóttu nýlega Fáskrúðsfjörð heim, en Minjavernd hlaut i ár þessi virtu verðlaun fyrir endurreisn Frönsku húsanna.
Europa Nostra á Fáskrúðsfirði
Heimsóknin er liður í almennri kynningu Europa nostra á þeim verkefnum sem hlutu verðlaunin í ár.
Auk þess sem boðsgestir fengu kynningu á Frönsku húsunum og uppbyggingarstarfi Minjaverndar, var farið í stutta kynnisferð með þá um önnur söfn í Fjarðabyggð á Norðfirði og Eskifirði.
Með hópnum í för voru m.a. Stefán Örn Stefánsson, arkitekt, sem á veg og vanda að þeirri vandmeðförnu hönnunarvinnu sem endurgerð húsanna byggir á og Pétur H. Ármannsson, sviðsstjóri hjá Minjastofnun Íslands.
Kynning Europa Nostra fór svo fram síðdegis á l'Abri, veitingastaðnum á jarðhæð Franska spítalans og var hún öllum opin.
Til máls tóku Þröstur Ólafsson, stjórnarformaður Minjaverndar, Piet Jaspaert, varaforseti Europa Nostra, Matthias Brinkmann, sendiherra ESB og Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.
Einnig var safnið Frakkar á Íslandsmiðum opið og var gestum boðið að þiggja kaffiveitingar.
Frönsku húsin á Fáskrúðsfirði eru fyrsta verkefnið á Íslandi sem hlotið hefur viðurkenningu Europa Nostra.