Opnun Eyrarvalla var fagnað í dag. Leikskólanum bárust í tilefni dagsins gjafir góðar og fræðslustjóri Fjarðabyggðar frumflutti söngvísur Eyrarvalla. Þá var veitt viðurkenning vegna nafnavals nýja leikskólans og má hér sjá Höllu Höskuldsdóttur, leikskólastjóra, afhenda Guðrúnu Evu Loftsdóttur bók að launum fyrir vinningstillöguna.
Í leikskóla er lífið gott
Einnig tók Halla við sérlega myndarlegum lykli úr hendi Páls Björgvins Guðmundssonar, bæjarstjóra. Lykillinn er, eins og sjá má, engin smásmíði og hæfði ánægjulegu tilefninu vel. Um hönnun lykilsins og gerð sá Hlynur Sveinsson.
Mikil hátíðarstemning var á opnunarhátíðinni og glatt á hjalla, en um eða yfir 300 manns sótti hátíðina.
Eyrarvellir eru hannaðir sem átta deilda leikskóli. Framkvæmdir hófust um miðjan janúarmánuð á síðasta ári og gengu vel fram. Nú með opnun skólans, hefur sveitarfélagið náð því ánægjulega takmarki að hafa leikskólarými fyrir öll 12 mánaða börn í Fjarðabyggð og eldri.
Ákveðið var að starfsemin fengi nýtt nafn með nýrri skólabyggingu og var dómnefnd skipuð til að fara yfir innsendar tillögur. Eins og áður segir, varð hlutskörpust tillaga Guðrúnar Evu, sem þótti tvinna skemmtilega saman annars vegar staðsetningu skólans á Neseyri í Neskaupstað og hins vegar gamla nafn leikskólans, sem hann hét áður Sólvellir.
Á meðal gjafa sem skólinn hlaut voru skjávarpi og iPad spjaldtölvur frá Samvinnufélagi Útgerðarmanna í Neskaupstað (SÚN) og tvíhjól og hlaupahjól frá VHE, verktaka byggingarframkvæmda. Fleiri góðar gjafir bárust frá foreldrafélag skólans, Vélaverkstæði G. Skúlasonar, Réttinagarverkstæði Sveins, Nestaki og Haka.
Óvæntasta gjöfin var þó vafalaust söngvísur Eyrarvalla, sem Þóroddur Helgason, fræðslustjóri, flutti við undirleik Jóns Hilmars Kárasonar og félaga. Bakraddir sungu með miklum glæsibrag Halla, leikskólastjóri og Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri. Vísunar eru sungnar við sama lag og Afi minn fór á honum Rauð og hefjast á þeim viðeigandi orðum að í leikskóla er lífið gott.
Eyrarvellir (e. Þórodd Helgason)
Í leikskóla er lífið gott
ljúft í hópinn föllum
hér er fallegt hér er flott
á fínum Eyrarvöllum
Elskum bæði fjör og frið
fögnum vinum öllum
Best á lífið lærum við
í leik á Eyrarvöllum
Alla daga endum í
ævintýrum snjöllum
Hugur frjáls og hetjan ný
hér á Eyrarvöllum
Dveljum sátt við sjávarnið
sól í glæstum fjöllum
glöð í hjarta höldum við
heim frá Eyrarvöllum
Söngvísur Eyrarvalla (pdf)