mobile navigation trigger mobile search trigger
08.02.2024

Fernuflugsmeistarar

Mjólkursamsalan hefur frá árinu 1994 beitt sér fyrir eflingu móðurmálsins með fjölbreyttum leiðum og hafa stærstu og sýnilegustu verkefni okkar verið íslenskuátökin á mjólkurfernum MS. Mjólkurfernurnar hafa þannig verið nýttar sem vettvangur málræktar, tjáningar og sköpunar og því var ákveðið að endurvekja textasamkeppni grunnskólanema, Fernuflug, á haustmánuðum 2023.

Fernuflugsmeistarar
Brynjar Davíðsson og Pálína Hrönn Garðarsdóttir

Að þessu sinni voru nemendur í 8. - 10. bekk hvattir til að velta fyrir sér spurningunni "Hvað er að vera ég?". Rúmlega 1.200 textar bárust í keppnina, þar á meðal frá nemendum Grunnskóla Reyðarfjarðar. Dómnefnd valdi 48 framúrskarandi texta til birtingar á mjólkurfernum. Þau Brynjar Davíðsson og Pálína Hrönn Garðarsdóttir, nemendur í 10. bekk voru í hópi þeirra sem fengu texta birta og fengu þau viðurkenningarskjöl afhent í dag sem þakklætisvott fyrir þátttökuna. 

Við hvetjum ykkur til að veita textunum athygli, næst þegar þið kaupið ykkur mjólk. Fjöldi annnarra frábærra texta liggja eftir nemendur skólans eftir þessa vinnu en í textum grunnskólanemanna á mjólkurfernum MS heyrast nýjar raddir og eru vonir bundnar við að þeir veki lesendur til vitundar um hvernig viðhorf okkar til málsins hafa áhrif á það hvernig það dafnar, en með því að sem flest skrifi, tali og skapi á íslensku á tungumálið okkar bjarta framtíð. 

Frétt af heimasíðu grunnskóla Reyðarfjarðar

Texti Brynjars:

Hvað er að vera ég?

Ég er ekki eins og ég var við fæðingu. Það er ekkert víst í lífinu.
Samfélagið hefur mótað mig eins og rúnaðan stein á sjávarbotni.
Foreldrar mínir, eldgosið sem ég myndaðist í,
leikskólakennarinn, vindurinn sem feykti mér í ána
og vinir mínir, áin sem bar mig niður að sjó.
Að læra að lesa, fyrsta aldan í fjörunni
og tískan, neðansjávarstraumarnir sem hafa áhrif á okkur öll.

Texti Pálínu:

Hvað er að vera ég?

Þegar þú lítur í spegil þá hefur þú val.
Þú hefur val um hvern þú vilt sjá.
Séð þú ytri myndina?
Persónuna sem aðrir sjá fyrst þegar horft er á þig.
Persónuna sem lifir í hugmyndaflugi annarra.
Eða sérðu nokkuð innri myndina?
Persónuna sem þú ein veist hver er.
Persónuna sem er.
Sönnu persónuna á bakvið grímuna.

Fleiri myndir:
Fernuflugsmeistarar
Fernuflugsmeistarar

Frétta og viðburðayfirlit