Fjarðabyggð hefur gert samkomulag við Eldvarnabandalagið um að efla eldvarnir heimila og stofnana sveitarfélagsins. Var samkomulag þess efnis undirritað á slökkvistöð Fjarðabyggðar í dag.
Fjarðabyggð gengur til liðs við Eldvarnabandalagið
Í samkomulaginu felst m.a. að Fjarðabyggð innleiðir eigið eldvarnaeftirlit nú í haust samkvæmt leiðbeiningum, gátlistum og öðrum gögnum sem Eldvarnabandalagið hefur gefið út.
Einnig verða þjálfaðir eldvarnafulltrúar sem annast eftirlit með eldvörnum í stofnunum sveitarfélagsins samkvæmt gátlistum Eldvarnabandalagsins, auk þess sem starfsmenn sveitarfélaganna fá fræðslu um eldvarnir, bæði á vinnustaðnum og heima fyrir.
Samstarfssamningurinn við Eldvarnabandlagið var undirritaður í dag á slökkvistöð Fjarðabyggðar í framhaldi af staðfestingu á nýrri brunavarnaáætlun sveitarfélagsins.
Fjarðabyggð er fyrsta sveitarfélagið á Austurlandi sem gerir samstarfssamning við Eldvarnabandalagið en áður hafa Akranes, Akureyri og Húnaþing vestra gert sambærilega samninga. Að sögn Páls Björgvins Guðmundssonar, bæjarstjóra, býður Eldvarnabandlagið upp á nýjar leiðir til að auka brunavarnir. Þá sé ekki síður mikilvægt að sveitarfélög gangi á undan með góðu fordæmi og eru vonir bundnar við að samstarfið skili sér í aukinni vitund innan sveitarfélagsins um mikilvægi eldvarna.
Eldvarnabandalagið er samstarfsvettvangur um auknar eldvarnir á heimilum og vinnustöðum. Aðild að því eiga: Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, TM hf., Vátryggingafélag Íslands hf. og Vörður tryggingar hf.
Nálgast má nánari upplýsingar um starfsemi Eldvarnabandalagsins á eldvarnabandalagid.is.
Sjá frétt frá Fjarðabyggð um starfið við Eldvarnabandalag (pdf)