Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri og Sigríður Margrét Guðjónsdóttir hjá Heimili og skóla staðfestu aðild Fjarðabyggðar að þjóðarsáttmála um læsi í Nesskóla í dag. Þjóðarsáttmálinn styður efnislega vel við þann samning sem sveitarfélög á Austurlandi gerðu með sér sl. haust um bættan námsárangur í læsi og stærðfræði.
Fjarðabyggð staðfestir þjóðarsáttmála um læsi
Umsjón með verkefninu hefur Menntamálastofnun, sem mun sjá grunnskólum fyrir leiðbeiningum og námskeiðum vegna sáttmálans. Framkvæmd þess styðst síðan við m.a. skimunarpróf sem tekin verða upp fyrir læsi og snemmtæka íhlutun þar sem þess gerist þörf. Markmiðið er að bættur árangur í læsi verði hluti af almennu skólastarfi til framtíðar og útfæra sveitarfélög með hvaða móti því marki verður náð innan eigin raða.
Undirritun vegna Fjarðabyggðar fór fram í Nesskóla nú síðdegis. Samningurinn er undirritaður í tvíriti og er önnur útgáfan, sem er agnarsmá, varðveitt í stóru Íslandslíkani.
Í máli mennta- og menningarráðherra, kom m.a. fram að 30% drengja og 14% stúlkna geti ekki lesið sér til gagns að grunnskólanámi loknu. Enn sjái ekki fyrir endann á þessari neikvæðu þróun og því er brýnt að þjóðin snúi bökum saman. Margt sé í húfi og nefndi ráðherra sem eitt dæmi þess af mörgum, að læsi sé forsenda þess að fólk fái notið jafnra tækifæra á lífsleiðinni.
Í ávarpi sínu, fagnaði Páll Björgvin, bæjarstjóri, því mikilvæga og metnaðarfulla frumkvæði sem stjórnvöld hafa tekið með þjóðarsáttmálanum. Sveitarfélögin á Austurlandi mörkuðu sambærilega stefnu fyrir leikskóla og grunnskóla með samkomulagi um bættan námsárangur og skólastjórnendur undirrituðu í byrjun þesssa árs. Enda þótt sá samningur snúi að bættum árangri í bæði læsi og stærðfræði, muni þjóðarsáttmálinn styðja efnislega afar vel við það starf sem þegar er hafið innan landshlutans.
Breiðdalshreppur staðfesti einnig aðild sína að þjóðasáttmálanum í Nesskóla í dag með undirritun Hákonar Hanssonar, oddvita. Þá fluttu nemendur í Tónskóla Neskaupstaðar tónlistaratriði í tilefni dagsins og hlutu hinir ungu og efnilegu þverflautuleikar lof fyrir frábæra frammistöðu.
Að undirritun lokinni var svo einkennislag þjóðarsáttmálans Það er gott að lesa frumflutt hér í Fjarðabyggð og tóku viðstaddir óspart undir þetta vinsæla lag eftir Bubba Morthens, sem höfundurinn hefur fært í nýjan og glæsilegan búning. Flytjandi er Ingó Veðurguð.
Auk ráðherra og viðkomandi sveitarstjóra, undirritar fulltrúi Heimilis og skóla á hverjum stað einnig samninginn, sem undirstrikar þann mikilvæga þátt sem samstarf foreldra og skóla hefur fyrir árangur verkefnisins. Mennta- og menningarmálaráðherra mun svo á næstu vikum fara um og leita eftir formlegum stuðningi allra 74 sveitarfélaga landsins við þjóðarsáttmálann.
Tengt efni:
Þjóðarsáttmáli um læsi - kynning.pdf, Þjóðarsáttmáli um læsi.pdf, Austurland - Leikskólar.pdf, Austurland - Grunnskólar.pdf