Fimmtudaginn 31. október 2019 var tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn Fjarðabyggðar fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og stofnana fyrir árið 2020 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2021-2023. Seinni umræðu bæjarstjórnar um fjárhagsáætlunina er áætluð 14. nóvember nk.
Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar 2020 og þriggja ára áætlun 2021-2023
Fjarðabyggð og Breiðdalshreppur sameinuðust formlega þann 1. júní 2018 í eitt sveitarfélag undir nafni Fjarðbyggðar. Fjárhagslegur samruni átti sér stað 1. júlí 2018. Það er því komin nokkur reynsla á rekstur nýs sveitarfélags en árið 2019 var fyrsta heila rekstrarárið.
Fjárhagsáætlunin leggur áfram áherslu á velferð fjölskyldufólks í Fjarðabyggð. Fæðisgjaldskrá grunnskóla og gjaldskrá leikskóla og tónlistarskóla standast samanburð við önnur sveitarfélög, s.d. systkinaafsláttur í leikskólum, sem og afsláttarkjör milli frístundaheimila og leikskóla. Systkinaafsláttur leikskólagjalda er óbreyttur og er, ásamt tónlistarskólagjöldum, með því hagstæðasta sem gerist á landinu. Þá hafa þegar verið stigin fyrstu skref í lækkun skólamáltíða í Fjarðabyggð en frá og með 1. ágúst 2020 mun skólamáltíð kosta 150 kr. en kostaði 450 kr. árið 2018. Með þessu er áfram lögð áhersla á velferð fjölskyldufólks í Fjarðabyggð. Allir flokkar í bæjarstjórn hafa sammælst um að framkvæma átak í málefnum fjölskyldunnar, en einn liður í því var að sameina fjölskyldusvið í eitt svið og ráða þar inn fleira fólk. Þessi breyting verður innleidd með aðferðum Austurlandslíkansins að leiðarljósi.. Þá er auknu fé veitt til leikskólastigsins sem og til menningarmála. Farið verður í heilsuátak fyrir eldri borgara í samstarfi við Janus heilsueflingu.
Fjarðabyggð býr að sterkum innviðum og sjást merki þess í áhuga fjárfesta á Fjarðabyggð. Áhuginn hefur einkum beinst að atvinnuuppbyggingu í hafnsækinni starfsemi. Þetta má m.a. sjá á áhuga fyrirtækja í fiskeldi á að koma starfsemi sinni fyrir í fjörðum Fjarðabyggðar. Slíkur áhugi sýnir sterka stöðu sveitarfélagsins til framtíðar litið, sem endurspeglast í þeirri fjárhagsáætlun sem hér er lögð fram.
Eins og áður verður aðhald í rekstri sveitarfélagsins viðvarandi á næstu árum og áfram verður leitað hagræðingartækifæra. Sú fjárhagsáætlun sem hér er lögð fram, er unnin með hliðsjón af fjármálareglum og fjárhagslegum viðmiðum sveitarfélaga, samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011.
Heildartekjur samstæðu A og B hluta eru áætlaðar rúmir 8,5 milljarðar króna á árinu 2020 en heildar rekstrarkostnaður um 7,9 milljarðar króna. Þar af eru launaliðir um 4,6 milljarðar króna, annar rekstrarkostnaður um 2,7 milljarðar króna og afskriftir um 560 milljónir króna. Heildartekjur í A-hluta eru áætlaðar tæpir 6,3 milljarðar króna en heildar rekstrarkostnaður um 6 milljarðar króna. Þar af eru launaliðir um 3,8 milljarðar króna, annar rekstrarkostnaður um 1,9 milljarðar króna. og afskriftir um 264 milljónir króna.
Rekstrarafgangur samstæðu A og B hluta fyrir fjármagnsliði er áætlaður 625 milljónir króna. Þar af er rekstrarafgangur A hluta 243 milljónir króna. Að teknu tilliti til fjármagnsliða verður rekstrarafgangur samstæðunnar 312 milljónir króna en rekstrarhalli í A hluta að fjárhæð 15 milljónir króna. Hrein fjármagnsgjöld samstæðu eru áætluðuð 314 milljónir króna og 258 milljónir króna hjá A-hluta.
Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar rúmlega 9,2 milljarðar króna í árslok 2020 hjá samstæðu A og B hluta og um 9 milljarðar króna hjá A hluta. Þar af eru reiknaðar lífeyrisskuldbindingar rúmlega 2,6 milljarðar króna hjá samstæðu og tæplega 2,5 milljarðar hjá A-hluta.
Í sjóðstreymisyfirliti er handbært fé frá rekstri í samstæðu 2020 áætlað rúmur 1 milljarður króna, afborganir langtímalána eru áætlaðar 557 milljónir króna og fjárfestingar 747 milljónir króna Afborganir langtímalána eru áætlaðar 370 milljónir króna í A hluta.
Samkvæmt fjárhagsáætlun ársins 2020 er framlegðarhlutfall (EBIDTA) um 14% í samstæðu og rúm 8% í A hluta.
Nánari upplýsingar um fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar veita Karl Óttar Pétursson bæjarstjóri og Snorri Styrkársson fjármálastjóri í síma 470-9000.
Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar 2020 og þriggja ára áætlun 2021-2023.