mobile navigation trigger mobile search trigger
05.11.2020

Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar 2021 og þriggja ára áætlun 2022-2024 – Fyrri umræða í bæjarstjórn í dag.

Fimmtudaginn 5. nóvember 2020 var tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn Fjarðabyggðar fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og stofnana fyrir árið 2021 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2022-2024.  Seinni umræða bæjarstjórnar um fjárhagsáætlunina hefur ekki verið ákveðin en verður fyrir miðjan desember nk. Upptöku af fundinum má finna á Youtube síðu Fjarðabyggðar.

Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar 2021 og þriggja ára áætlun 2022-2024 – Fyrri umræða í bæjarstjórn í dag.

Áætlunin ber merki þess að Covid-19 faraldurinn, sem tekist hefur verið á við á árinu, hefur haft mikil efnahagsleg áhrif á Íslandi og í öllum heiminum. Áætlað er að niðurstaða ársins 2020 verði sem nemur um 250 milljónum kr. lakari en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir vegna þessa.  Ófyrirséð er hversu alvarlegar afleiðingar Covid-19 mun hafa á efnahagsþróunina á árinu 2021 en reynt er að stíga varlega til jarðar í fjárhagsáætlun ársins 2021 fyrir Fjarðabyggð.  Gert er ráð fyrir varfærinni nálgun í skatttekjum sem og þjónustugjöldum Fjarðabyggðar auk hafnarsjóðs en Fjarðabyggðarhafnir eru annar stærsti hafnarsjóður landsins og stærsta löndunarhöfn á uppsjávarafurðum hérlendis.  Ekki er gert ráð fyrir loðnuveiðum á árinu 2021 í fjárhagsáætluninni vegna óvissu í mælingum á stofnstærð, hvorki í útsvarstekjum eða tekjum hafnarsjóðs.

Eins og undafarin ár er í áætluninni lögð áhersla á velferð fjölskyldufólks í Fjarðabyggð. Þrátt fyrir hækkun á flestum gjaldskrám, vegna verðlagsbreytinga og launahækkana standast gjaldskrár leikskóla, frístundaheimila og tónlistarskóla áfram vel samanburð við önnur sveitarfélög. Systkinaafsláttur leikskóla- og frístundagjalda ásamt tónlistarskólagjöldum er áfram með því hagstæðasta sem gerist á landinu. Þá verður áframhald á lækkun skólamáltíða í Fjarðabyggð en máltíðin kostaði 450 kr. árið 2018 en 150 kr. í dag. En markmiðið er að þær verði gjaldfrjálsar frá haustinu 2021.

Fjarðabyggð býr að sterkum innviðum og sjást merki þess í áhuga fjárfesta á Fjarðabyggð.  Áhuginn hefur einkum beinst að atvinnuuppbyggingu í hafnsækinni starfsemi. Þetta má m.a. sjá á áhuga fyrirtækja í fiskeldi á að koma starfsemi sinni fyrir í fjörðum Fjarðabyggðar. Slíkur áhugi sýnir sterka stöðu sveitarfélagsins til framtíðar litið, sem endurspeglast í þeirri fjárhagsáætlun sem hér er lögð fram.  

Heildartekjur samstæðu A og B hluta eru áætlaðar rúmir 8,5 milljarðar króna á árinu 2020 en heildar rekstrarkostnaður um 7,9 milljarðar króna. Þar af eru launaliðir um 4,6 milljarðar króna, annar rekstrarkostnaður um 2,7 milljarðar króna og afskriftir um 560 milljónir króna.  Heildartekjur í A-hluta eru áætlaðar tæpir 6,3 milljarðar króna en heildar rekstrarkostnaður um 6 milljarðar króna. Þar af eru launaliðir um 3,8 milljarðar króna, annar rekstrarkostnaður um 1,9 milljarðar króna. og afskriftir um 264 milljónir króna.

Helstu tölur

Rekstrarafgangur samstæðu A og B hluta fyrir fjármagnsliði er áætlaður 611 milljónir króna. Þar af er rekstrarafgangur A hluta 244 milljónir króna. Að teknu tilliti til fjármagnsliða verður rekstrarafgangur samstæðunnar 343 milljónir króna en rekstrarafgangur í A hluta er að fjárhæð 11 milljónir króna.  Hrein fjármagnsgjöld samstæðu eru áætluðuð 268 milljónir króna og 233 milljónir króna hjá A-hluta.

Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar rúmlega 9,5 milljarðar króna í árslok 2021 hjá samstæðu A og B hluta og um 9,7 milljarðar króna hjá A hluta. Þar af eru reiknaðar lífeyrisskuldbindingar rúmlega 2,7 milljarðar króna hjá samstæðu og tæplega 2,6 milljarðar hjá A-hluta.

Í sjóðstreymisyfirliti er handbært fé frá rekstri í samstæðu 2021 áætlað rúmur 870 milljónir króna, afborganir langtímalána eru áætlaðar 540 milljónir króna og fjárfestingar tæplega 1,1 milljarður króna  Afborganir langtímalána eru áætlaðar 386 milljónir króna í A hluta.

Samkvæmt fjárhagsáætlun ársins 2021 er framlegðarhlutfall (EBIDTA) um 15% í samstæðu og rúm 8% í A hluta. 

Nánari upplýsingar um fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar veita Jón Björn Hákonarson bæjarstjóri og Snorri Styrkársson fjármálastjóri í síma 470-9000.

Frétta og viðburðayfirlit