Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar fyrir árið 2024, ásamt þriggjá ára áætlun 2025 - 2027 var samþykkt við síðari umræðu bæjarstjórnar fimmtudaginn 30. nóvember með fimm atkvæðum fulltrúa Fjarðalistans og Framsóknarflokksins, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn fjárhagsáætluninni.
Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar samþykkt í bæjarstjórn
Að venju samanstendur tillagan af tölulegri umfjöllun um annars vegar A-hluta bæjarsjóðs og hins vegar A- og B-hluta, ásamt greinargerð. Í A-hluta er aðalsjóður og eignasjóðir, en í B-hluta eru veitustofnanir auk hafnarsjóðs, félagslegra íbúða og sorpstöðvar. Þá er, líkt og síðustu ár, áætlunin sett fram sameinuð í eina fjárhagsáætlun fyrir komandi ár og svo næstu þriggja ára. Þá er að finna í henni frekari ítarupplýsingar um fjölbreyttan rekstur Fjarðabyggðar.
Áætlunin gerir ráð fyrir því að rekstrarniðurstaða í árslok 2024 í A-hluta verði jákvæð um 109 milljónir króna og í samstæðu A og B hluta um 552 milljónir króna.
Áætlunin ber þess merki að fjárhagur Fjarðabyggðar, eins og annarra sveitarfélaga, er þungur. Sviptingar eru í efnahagslífinu á Íslandi með birtast m.a. í hárri verðbólgu og vaxtastigi sem hefur ekki sést síðan í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Það, ásamt óvissu sem framundan er varðar þróun kjarasamninga eru aðstæður sem sveitarfélagið þarf að takast á við í sinni áætlanagerð fyrir komandi ár.
Á tekjuhlið áætlunar er gert ráð fyrir að staðgreiðslutekjur aukist um 6,1% frá spá um niðurstöðu ársins 2023. Sveitarfélagið hefur í gegnum tíðina ávallt nálgast tekjuspá fjárhagsáætlunar með varfærnum hætti og engin munur á því nú. Mikil óvissa eru um veiðiheimildir í loðnu og í spánni er tekið tillit til þessarar óvissu en miðað við að veiðar haldist lítt breyttar í öðrum tegundum. Fjarðabyggðahafnir eru annar stærsti hafnarsjóður landsins og stærsta löndunarhöfn landsins í uppsjávarafurðum sem gerir það að verkum að sveiflur í veiðum og verðum slíkra afurða hafa mikil áhrif á fjárhag sveitarfélagsins.
Þá er gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun 2023 að álagningarhlutfall fasteignaskatts íbúðarhúsnæðis verði óbreytt 0,424%. Breyting á matsstofni íbúðarhúsnæðis eykur tekjur sveitarfélagsins frá árinu 2023 en samhliða er ráðgert að hækka veittan afslátt til þeirra sem undir þær reglur falla. Það er mikið ánægjuefni að íbúðarverð fari hækkandi og um leið skapast grundvöllur til nýbygginga í sveitarfélaginu sem kemur á móti húsnæðisskorti sem hefur verið mikill í hverfum Fjarðabyggðar.
Hækkun verður á álagningarhlutfalli fráveitu og færist í 0,3232% af matsstofni vegna aukinnar fjárfestingarþarfar í fráveitum Fjarðabyggðar. Á móti þessari hækkun verður lækkun á vatnsgjaldi þannig að heildarálagning beggja gjaldanna leiði ekki til hlutfallslegrar breytingar á stöðu gjaldanna gagnvart íbúum.
Á kostnaðarhlið áætlunarinnar byggir launaáætlun ársins 2024 á áætlunum stjórnenda á grunni gildandi kjarasamninga. Mikil óvissa er um komandi kjarasamninga og því eru teknar til hliðar fjármunir í miðlægan pott hjá bæjarráði til að mæta mögulegum launabreytingum á árinu 2024. Annar rekstrarkostnaður er einnig áætlaður af stjórnendum á grunni starfsáætlana fyrir árið 2024. Fjármagnsliðir eru áætlaðir á grunni þeirra lánskjara sem Fjarðabyggð er með og eru verðbólguviðmið höfð 5,6% í takt við þjóðhagsspá Hagstofnu Íslands í nóvember 2023.
Stærsta fjárfestingarverkefni ársins 2024 verður að halda áfram uppbyggingu á leikskólanum Dalborg á Eskifirði og stærstu tækjakaupin eru kaup á nýjum slökkvibíl. Þá eru stærstu verkefnin í Hafnarsjóði bygging Strandarbryggju á Fáskrúðsfirði og áframhaldandi vinna við uppbyggingu og dýpkun hafnarinnar á Eskifirði. Fjarðabyggð gerir ráð fyrir að framlegð af rekstri standi undir fjárfestingum og afborgunum af lánum á áætlanatímabilinu og er því ekki gert ráð fyrir lántökum á tímabilinu.
Helstu áhersluatriði í starfsáætlunum sviða eru m.a. eftirfarandi:
- Áframhaldandi áhersla á aukna samhæfingu starfsemi og úrræða innan fjölskyldusviðs.
- Áhersla er á rýni reksturs leik- grunn og tónskóla Fjarðabyggðar með það fyrir augum að auka rekstrarlega samlegð og efla faglegt starf.
- Unnið að framtíðarstefnu í íþróttamálum í Fjarðabyggð og rýni á viðhaldsþörf mannvirkja og forgangsröðun því tengt.
- Tilraunaverkefnið „Gott að eldast“ fer af stað í samstarfi við HSA og ráðuneyti.
- Menningarstefna endurskoðuð og horft til frekari eflingar og samþættingar menningar-, lista- og safnastarfs.
- Fylgt verður eftir þeim verkefnum og úrbótum sem í gangi eru á vettvangi almannavarna og öryggismála í sveitarfélaginu í kjölfar náttúruhamfaranna síðasta vetur.
- Unnið verði að deiliskipulögum m.a. vegna miðbæjarsvæða á Eskifirði og Balanum á Stöðvarfirði auk forgangsröðun á frekari deiliskipulagsgerð.
- Innleiðing lausna og útfærsla kerfis í kjölfar nýrra laga um móttöku úrgangs.
- Áframhaldandi áhersla á uppbyggingu húsnæðis í Fjarðabyggð með framboði á lóðum auk þátttöku í verkefnum eins og t.d. í gegnum Brák á grunni húsnæðisstefnu sveitarfélagsins.
- Áhersla á auknar greiningar og upplýsingagjöf stoðsviða sem nýtast við ákvarðanatöku, eftirfylgni og stefnumótun.
- Unnið að auknu samstarfi atvinnulífs á svæðinu m.a. í tengslum við þróun græns orkugarðs.
Upptöku af fundi bæjarstjórnar má finn með því að smella hér.