Milljarður rís í Fjarðabyggð fór fram á föstudag og dönsuðu þátttakendur á öllum aldri í minningu Birnu Brjánsdóttur.
Fjöldi dansaði gegn ofbeldi
Fjöldi var samankominn í íþróttahúsinu í Neskaupstað í hádeginu á föstudag og dansaði fyrir réttlátari heimi. Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri, hélt ávarp þar sem hann kom m.a. inn á mikilvægi þess að við pössum upp á hvert annað. Næst kom Guðrún Smáradóttir upp og leiddi dansinn. Byrjað var á upphitunarsporum en síðan kom hvert lagið á fætur öðru með fjölbreyttum sporum. Þátttakendur voru á öllum aldri, frá leikskólaaldri upp í eldri borgara og allir tóku virkan þátt. Dansinn var það æsilegur að svitinn bogaði af fólki.
Þegar dansinum lauk söfnuðust þátttakendur saman og minntust Birnu Brjánsdóttur með því að haldast í hendur og mynda hjarta. Ljósin voru slökkt og kveiktu þátttakendur á ljósum í símum sínum. Lag Gunnars Þórðarsonar við ljóð Friðriks Erlingssonar, Alein, sem samið var til minningar um Birnu, hljómaði á meðan.
Viðburðurinn var haldinn af UN Women í samstarfi við Fjarðabyggð, VA og Nesskóla. Fjarðabyggð var eitt 10 sveitarfélaga þar sem viðburðurinn var haldinn en þetta var í fimmta sinn sem hann er haldinn í Neskaupstað. Fjöldi þátttakenda hefur vaxið ár frá ári og mun án efa gera það áfram því málefnið er þarft.
Hægt er að sjá myndband af viðburðinum á Fésbókarsíðu Fjarðabyggðar.