Á bæjarskrifstofu Fjarðabyggðar voru nýir siðir í endurvinnslu formlega teknir upp á starfsmannafundi sl. fimmtudag, þegar starfsmenn komu með ruslafötur fyrir almennan úrgang sem höfðu verið staðsettar við hvert skrifboð og skiluðu þeim.
Flokkum í Fjarðabyggð
Að auki voru fjarlægðar samskonar ruslafötur sem höfðu verið staðsettar í öllum fundaherbergjum. Í staðinn eru komin fleiri ílát fyrir flokkaðan úrgang og flokkun því gerð aðgengilegri.
Er þetta gert til þess að auka þátttöku í flokkun en bæjarskrifstofan vill vera til fyrirmyndar í endurvinnslu.
Allt sem er flokkað til endurvinnslu fer í grænu tunnuna eða á söfnunarstöð sveitarfélagsins og pappír sem er auður öðru megin, fær nýtt líf sem minnismiði.
Þessi skref miða að því að hækka það hlutfall úrgangs sem fer til endurvinnslu og ljóst er að það er vel hægt.
Þess má geta að á síðasta ári söfnuðust um 150 tonn af endurvinnanlegum úrgangi í grænar tunnur við heimili í Fjarðabyggð. Það var þó aðeins 16% af heildarúrgangi sem var hirtur frá heimilum. Það er ljóst að mikið af endurvinnanlegum úrgangi ratar ekki í endurvinnslutunnurnar.
Hér fyrir neðan má sjá flokkunartöflu og verklagsreglur sem stuðst er við á bæjarskrifstofunni.