Á næstu vikum er loks komið að því að íbúar Fjarðabyggðar geti farið að flokka lífrænan úrgang frá almennum úrgangi.
Flokkun á lífrænum úrgangi
Handbók sem inniheldur helstu upplýsingar verður borin í hvert hús og einnig munu starfsmenn Íslenska Gámafélagsins heimsækja íbúa dagana 8. - 13. janúar og svara spurningum. Í kjölfarið fá öll heimili senda heim brúna tunnu, körfu og lífræna poka. Handbókina má nálgast hér: Við hugsum áður en við hendum
Með flokkun á lífrænum úrgangi er komið í veg fyrir að úrgangurinn endi í urðun, þar sem hann myndar virkar gróðurhúsalofttegundir. Þess í stað er úrganginum breytt í næringarríka moltu, sem íbúar geta nýtt sér við garðyrkjustörfin.
Jafnframt verður tekið upp klippikort á söfnunar- og móttökustöðum en kortið er einnig liður í því mikilvæga ferli að minnka úrgang sem endar í urðun. Klippikort verða borin í hús með handbókinni en mikilvægt er að týna ekki klippikortunum, því þá þarf viðkomandi að greiða fyrir nýtt kort. Með því að sýna kortið geta íbúar losað sig við 4 m3 af gjaldskyldum úrgangi á ári án þess að greiða fyrir. Ef farið er umfram það magn þarf hinsvegar að kaupa nýtt kort. Öll fyrirtæki þurfa að greiða fyrir klippikort.
Allar frekari upplýsingar varðandi flokkun og klippikort eru í handbókinni og á heimasíðu Fjarðabyggðar
Nánari upplýsingar veitir Ragna Dagbjört Davíðsdóttir verkefnastjóri umhverfismála, ragna.d.davidsdottir@fjardabyggd.is