Fornleifar sem hafa fundist í Stöð í Stöðvarfirði eru frá því snemma á 9. öld og getur fundurinn haft áhrif á skilning okkar á Íslandssögunni.
Fornleifarannsóknir í Stöðvarfirði
Líklegt hefur verið talið að þarna sé að finna landnámsbæ landnámsmannsins Þórhaddar gamla. Allt byrjaði þetta með því að til stóð að leggja ljósleiðara í landi Stöðvar, þá fundust rústir og könnunarhola tekin. Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur, stýrði rannsókninni og var staðfest með kolagreiningu að um landnámsbæ er að ræða.
Í kringum þetta stofnuðu heimamenn félag en það nefnist Félag áhugafólks um fornleifar í Stöðvarfirði. Í félaginu eru 66 skráðir meðlimir sem er stór hluti þorpsbúa sem eru um 180. Aðalfundur var haldinn í gær þar sem um þriðjungur félagsmanna mætti. Á fundinum var stjórn kjörin. Björgvin Valur Guðmundsson er formaður og með honum í stjórninni eru Guðrún Ármannsdóttir, Ívar Ingimarsson, Jóhanna Guðný Halldórsdóttir og Ingþór Eide Guðjónsson. Félagið sér um rekstur og áætlanir varðandi verkefnið og sækir fjármagn í það. Félagið hefur borgað fæði og húsnæði, tilfallandi vinnu og allt heima við t.d. vélavinnu en auk þess m.a. forvörslu og aldursgreiningu. Fjármögnunin hefur gengið vel upp á síðkastið og félagið getur farið að leggja meira inn í vinnuna við uppgröftinn sjálfan.
Staðan á verkefninu nú er sú að búið er að finna 3 hús á svæðinu. Það er ekki langt á milli þeirra í aldri og líklegt má telja að þar hafi búið fólk sem fluttist af landi brott en kom svo aftur. Líklegt má teljast að það séu leifar á svæðinu sem eru enn eldri þar sem Bjarni telur að hann sé ekki kominn nægilega langt niður til þess að geta sagt til um nákvæman aldur.
Gert er ráð fyrir 5 árum í verkefnið til að byrja með. Fjarðabyggð hefur stutt við verkefnið síðustu ár. Á síðasta ári styrkti sveitarfélagið verkefnið um 400.000 kr. og á þessu ári hækkaði styrkurinn í 1.000.000 kr. Á þriðjudag gengu þau Guðrún, Björgvin Valur og Páll Björgvin frá styrkveitingunni í Stöðvarfjarðarskóla.