Fornleifarannsóknir benda til að landnámsskáli hafi fundist á Stöð í Stöðvarfirði. Fjarðabyggð hefur ábyrgst forvarnir á þeim gripum sem frekari rannsóknir kunna að leiða í ljós.
Fornminjafundur á Stöðvarfirði vekur athygli
Aðdragandi málsins er sá, að vísbendingar um merkar fornminjar komu fram við athugun á mögulegum línulögnum á svæðinu.
Fornleifafræðingi var í framhaldinu falið að gera forkönnun og benda niðurstöður til þess að landsnámsbústaðurinn á Stöð sé fundinn, sem er jafnframt talinn fyrsti landnámsskálinn á Austurlandi.
Stefnt er að því að teknar verði tvær rannsóknarholur síðar í þessum mánuði til að fá úr þessu skorið.
Bæjarráð Fjarðabyggðar samþykkti á fundi sínum sl. mánudag, að sveitarfélagið ábyrgist forvarnir á þeim gripum sem kunni að finnast í rannsóknarholunum, áður en þeir verða afhentir Þjóðminjasafni Íslands til varðveislu og frekari rannsókna.
Greint er frá upphafi byggðar Íslandsbyggðar í Landnámu. Þar segir um Stöðvarfjörð: "Þórhaddur hinn gamli var hofgoði í Þrándheimi á Mæri. Hann fýstist til Íslands og tók áður ofan hofið og hafði með sér hofsmoldina og súlurnar; en hann kom í Stöðvarfjörð og lagði Mærina-helgi á allan fjörðinn og lét engu tortíma þar nema kvikfé heimilu. Hann bjó þar alla ævi og eru frá honum Stöðfirðingar komnir." (Landnáma, bls. 307-308.)
Tengt efni:
Viðtal við Gunnar Jónsson, bæjarritara, á visir.is og í Fréttablaðinu