Staðarfáni Fortitude verður dreginn aftur að húni í Fjarðabyggð þann 1. febrúar nk., en þá hefjast á nýjan leik tökur á þessari alþjóðlegu sjónvarpsþáttaröð. Hér má sjá hóp starfsmanna frá framleiðanda, sem kom austur um miðjan desember sl. til að hefja undirbúningsvinnu fyrir tökurnar.
Fortitude II á leiðinni
Að þessu sinni fer framleiðslan fram í tveimur framleiðslulotum sem standa yfir annars vegar frá 1. til 28. febrúar og hins vegar frá 28. mars til 25. apríl.
Sem fyrr fara tökur fram á Reyðarfirði og Eskifirði og verður sviðsmyndin í báðum bæjarkjörnum með líku sniði og áður. Jafnframt verður nokkrum nýjungum bætt við, s.s. viðbyggingu við veitinga- og gististaðinn Tærgesen á Reyðarfirði, sem gegnir hlutverki Midnight Sun Hotel. Þá verður kvikmyndakrani settur upp ofan við þéttbýlið á Reyðarfirði við Búðarárfoss, þar sem hundasleðabúðir eða „Husky Compound“ verða jafnframt staðsettar.
Vonir standa til þess að veturinn nú verði jafn snjóþungur og í fyrra, en þegar framleiðsla þáttanna hófst snemma árs 2014 fór svo að flytja þurfti umtalsvert magn af snjó af hálendinu í nágrenni Reyðarfjarðar og Eskifjarðar til að bæta upp snjóleysi sem þá var á láglendi.
Framleiðendur Fortitude eru Sky Atlantic. Eins og áður sér íslenska kvikmyndafyrirtækið Pegasus um framleiðslu þess hluta þáttanna sem tekinn er hér á landi.