Línur eru farnar að skýrast í fótboltanum hér fyrir austan. Margt bendir til að tvö lið frá Fjarðabyggð leiki í 1.deild á næsta ári en Leiknir og Huginn eru í harðri baráttu ásamt ÍR um tvö laus sæti í 1.deild.
Fótboltinn það sem af er sumri
1.deild karla
Þegar þrjár umferðir eru eftir af 1. deildinni er lið Fjarðabyggðar í 6. sæti deildarinnar og siglir lygnan sjó. Fjarðabyggðarmönnum gekk mjög vel framan af móti og eftir fyrri umferð var liðið meðal efstu liða. Eftir að hafa í 11.umferð þann 11. júlí unnið lið Víkings Ólafsvík 1-0, tók við verulega slæmur kafli og í næstu leikjum fékk liðið einungis 3 stig í jafnmörgum jafnteflisleikjum en aðrir leikir töpuðust. Lið Víkings Ólafsvík hefur tryggt sér sigur í deildinni og einungis tapað tveimur leikjum af nítján. Fjarðabyggð vann þó sigur á Þrótti í síðustu umferð og vonandi að liðið nái að klára síðustu leikina með stæl.
2.deild karla
Þegar þrjár umferðir eru eftir er Leiknir í efsta sæti deildarinnar en þrjú lið berjast um tvö laus sæti í 1.deild; Huginn, ÍR og Leiknir. Leiknir á tvo heimaleiki eftir, sá fyrri er gegn ÍR 5. september í Fjarðabyggðarhöllinni og vinnist sá leikur er liðið komið með annan fótinn í 1. deild. ÍR á einnig eftir að leika við Huginn hér fyrir austan. Vegna slæms ástands á vellinum á Búðagrund á Fáskrúðsfirði í sumar hafa Leiknismenn leikið alla heimaleiki sína í Fjarðabyggðarhöllinni og hefur höllin reynst liðinu vel, liðið hefur unnið sjö leiki og gert tvö jafntefli.
Lið Hattar er um miðja deild en liðið getur þó enn mögulega fallið ef úrslit í síðustu leikjum verða liðinu sérlega óhagstæð.
1.deild kvenna
Kvennalið Fjarðabyggðar stóð sig vel í sumar og komst í úrslitakeppni 1. deildar eftir að hafa lent í 2.sæti í C-riðli. Í 8. liða úrslitum lenti liðið á móti Skagastelpum en tapaði báðum leikjunum 0 - 3.
3.deild karla
Lið Einhverja verður áfram í 3. deild en þegar tvær umferðir eru eftir af deildinni er liðið í 4.sæti.