Almannavarnanefnd vekur athygli á mjög slæmri veðurspá fyrir Austfirði í kvöld og nótt. Full ástæða er til að gera allar nauðsynlegar og viðeigandi ráðstafanir. Um miðnætti verður hvöss austanátt með mikilli úrkomu og undir morgun er von á mjög hvassri sunnanátt sem gæti nálgast fárviðri.
29.12.2015
Frá Almannavarnanefnd fjarða
![Frá Almannavarnanefnd fjarða Frá Almannavarnanefnd fjarða](/media/ovedursmynd.jpg?w=600)
Fyrirtæki og íbúar eru hvattir til að huga að og festa niður gáma, bretti, fiskkör, sorpílát, trampolín, skjólveggi og allt annað lauslegt á lóðum. Jafnframt að hreinsa frá og fylgjast með niðurföllum.
Íbúar eru hvattir til að fylgjast með tilkynningum á heimasíðu Fjarðabyggðar, fjardabyggd.is sem og fjölmiðlum.
Fólki er bent á að fylgjast með veðurspám og vakin er athygli á að textaspár eru nákvæmari en myndrit.
Þá er fólk hvatt til að halda sig heima við og vera ekki á ferðinni í nótt og fyrramálið.
Allar beiðnir um aðstoð skulu berast til Neyðarlínu 112.