Framkvæmdasýsla ríkisins hefur f.h. Fjarðabyggðar óskað eftir tilboðum í framkvæmdir við ofanflóðavarnir á Eskifirði. Framkvæmdin fellst í gerð ofanflóðavarna í og við farveg Lambeyrarár. Skilafrestur á tilboðum er til 8. september nk. Nánari upplýsingar má finna á vef Ríkiskaupa með því að smella hér.
Framkvæmdir við gerð ofanflóðavarna við Lambeyrará á Eskifirði
Lambeyrará má segja að falli til sjávar um miðbæ Eskifjarðar. Neðri hluti farvegarins er í grófri eyri en þegar henni sleppir er hann grafinn í grófa skriðu og á efsta hluta framkvæmdasvæðisins rennur áin í farvegi gröfnum í klöpp. Farvegurinn er þröngur og grýttur. Á suðurkanti hans er hinn gamli Norðfjarðarvegur eða Botnabraut, en að norðan eru nokkur hús, flest í hæflegri fjarlægð. Þó þarf að fjarlægja einn bílskúr og eitt íbúðarhús og gamalt trésmíðaverkstæði, sem var byggt nánast ofan í farveginum undir bröttum mel, en á honum trónir félagsheimilið Melbær við Fossgötu.
Á Lambeyrará er brú, sem ytri hluta Eskifjarðar og er hún eina akfæra leiðin að íbúðarhúsum, gisti- og veitingastöðum og annarri þjónustu og sveitinni utan við Eskifjörð.
Helstu verkþættir:
Farvegur Lambeyrarár verður breikkaður og dýpkaður og botn og bakkar mótaðir með grjóthleðslum og steyptum veggjum. Farvegurinn verður 7,5 til 12 metra breiður í botninn og enn breiðari neðan Strandgötu, 340 metra langur og 3- til 4 metra djúpur. Efst er austurhlið nýja farvegarins hlaðin úr grjóti með fláanum 1:0,33 (=3:1) og neðan Strandgötu eru báðar hlaðnar með fláa 1:1,4-1,5. Annars er veggir farvegarins steyptir.
Veitufarvegur verður gerð úr Kirkjutungulæk yfir í Lambeyrará u.þ.b. 300 metrum ofan við Fossgötu. Skurðurinn er tæplega 80 metra langur og neðan við hann byggður varnargarður og er toppur hans 3,3 metra ofan við skurðbotn.
Leiðiveggir verða byggðir báðum megin við efri hluta farvegar. Veggirnir eru 120 og 90 metra langir og verða hæstir u.þ.b. 4 m háir, og með langhalla mest 36%. Framhlið veggjanna er brött 1:0,25 gerð úr styrktarkerfi úr stálneti en bakhliðar flatar (1:2 og 1:3) og grasi vaxnar.
Botnabraut verður endurbyggð og á austurkanti hennar byggður 1,2 metra hár steyptur veggur. Einnig verður slíkur veggur byggður innan við farveginn milli Strandgötu og Túngötu.
Steypt brú verður byggð á Strandgötu, akfær göngubrú milli Túngötu og Lambeyrarbrautar og léttar göngubrýr ofan Melbæjar og ofan garða. Fjarlægja þarf núverandi brúarmannvirki á báðum stöðum og einnig þarf að fjarlægja léttar göngubrýr ofan við Melbæ. Gera þarf hjáleið neðan Strandgötu meðan framkvæmdir við brúarsmíði þar standa yfir.
Lagnir þarf að flytja til, bæði til bráðabirgða og varanlega, í tengslum við framkvæmdirnar, bæði í byggð og ofan við varnargarða.
Landmótun og yfirborðsfrágangur felst í mótun svæða við skurðbakka og leiðiveggi, gerð göngustíga og að ganga frá yfirborði með gróðurlagi og þökum eða grassáningu.