Á síðasta ári samþykkti ríkisstjórnin að 600 milljónum króna yrði varið til að flýta upphafi framkvæmda við ofanflóðavarnir í Neskaupstað um eitt ár.
Framkvæmdin felur í sér að reistur er 730 metra langur þvergarður ofan við efstu hús í Mýra- og Bakkahverfi. Undir Nesgili verður hæð garðsins um 21,5 metra og undir Bakkagili verður hæðin um 20,5 metrar. Ofan við garðinn verða jafnframt reistar tvær keiluraðir af samtals 20 keilum sem eiga að draga úr flóðhraða. Framkvæmdasvæðið verður um 23 hektarar og raskað svæði verður um 9,5 hektarar. Talið er að efnistaka úr skeringum á framkvæmdasvæði verði alls um 400.000 m3 sem fer í gerð þvergarðs og keilna.
Framkvæmdartími er áætlaður frá lokum júlí í ár til ársloka 2029. Umsjón verksins er í höndum Framkvæmdasýslu Ríkiseigna.
Fyrsti verkfundur framkvæmdanna var haldinn fimmtudaginn 18. júlí með verktaka verksins Héraðsverki, fulltrúum Fjarðabyggðar, Framkvæmdasýslu Ríkiseigna og Ofanflóðasjóðs.
Undirbúningur verktaka vegna verksins hefjast í dag, þriðjudaginn 23. júlí og tekur um tvær til fjórar vikur. Byrjað verður á því að koma búnaði og tækjum á staðinn ásamt því leggja aðkomu- og vinnuvegi á framkvæmdasvæðinu. Þá fer fram ástandsskoðun húsa í nærumhverfi.
Fyrstu áfangar verksins á árinu 2024 eru eftirfarandi:
- Undirbúningur efnisvinnslu, efni hreinsað af klöppum og sprengdar klappir. Vinna við afvötnun svæðisins og gerður nýr farvegur við mörk Fólkvangs.
- Ný brú við aðkomu að Fólkvangi. Vinna við uppsetningu á tveimur til fjórum keilum í efri keiluröð ofan Starmýrar.Vinna við efnisskipti undir þvergarði.
Sprengt verður á framkvæmdasvæði ofan byggðar í Nes- og Bakkagiljum og Drangagili. Tímasetningar sprenginga verða auglýstar sérstaklega síðar meir. Hljóðmerki verða gefin fyrir hverja sprengingu og sms skilaboð send á íbúa innan skilgreinds svæðis fyrir hvern dag sem sprengingar eru framkvæmdar.
Göngu- og hjólaleiðum í nálægð við framkvæmdasvæðið kann að verða lokað tímabundið meðan á framkvæmdum stendur.
Óskað er eftir góðu samstarfi við íbúa vegna framkvæmdanna og er sérstaklega óskað eftir að foreldrar fari yfir með börnum sínum hvað ber að varast í tengslum við framkvæmdirnar.
Frekari upplýsignar er hægt að nálgast inná skipulagsvefsjá
Kynning-ibuafundur