Þeir sem lagt hafa leið sína upp að stíflunni í Búðará undanfarið hafa væntanlega orðið varir við að talsverðar framkvæmdir standa nú yfir við stífluna. Þar er nú unnið að því steypa stífluna upp og lagfæra hana.
Framkvæmdir við stífluna í Búðará
Stíflan var fyrst gerð árið 1930 og hefur æ síðan séð Rafveitu Reyðarfjarðar fyrir rafmagni. Þetta er í fyrsta skipti sem farið er í svo viðamikla viðgerð á stíflunni og því greinilegt að vel hefur verið vandað til verka þegar stíflan var reist. Hingað til hefur aðeins þurft að fara í smærri viðgerðir á henni.
Framkvæmdin er viðamikil og eins og sjá má á myndunum sem hér fylgja er mikið um að vera en auk þess sem unnið er við að steypa stífluna upp var tækifærið notað til að hreinsa möl og sand úr botni uppistöðulónsins. Unnið hefur verið við verkið síðustu tvær vikur og er gert ráð fyrir að framkvæmdum verði lokið fyrir helgina.
Um leið og unnið hefur verið við viðgerð á stíflunni hefur einnig verið unnið að því að lagfæra vélbúnað Rafveitu Reyðarfjarðar en stór hluti hans er frá árinu 1948 og er því að nálgast það að verða 70 ára gamall.