Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri, fjallaði á íbúafundi í gær um ofanflóðavarnir á Eskifirði. Að framkvæmdum loknum verða öll svæði í þéttbýli varin sem talin eru í mestri hættu fyrir aur- og skriðuföllum.
Framkvæmum við Hlíðarendaá lýkur í sumar
Framkvæmdir fara fram í fimm aðskildum áföngum. Lokið var við fyrsta áfanga, sem sneri að Bleiksá, á síðasta ári og í framhaldi af því var hafist var handa við annan áfanga. Þær framkvæmdir eru við Hlíðarendaá og er gert ráð fyrir að þeim ljúki nú í sumar. Þeir þrír áfangar sem eftir eru snúa að Grjótá, Lambeyrará og Ljósá.
Í máli bæjarstjóra kom m.a. fram að ofanflóðavarnir vegna aur- og skriðufalla felist aðallega í því að leiða hugsanleg vatns- og skriðuföll í stryktan farveg með því að breikka og dýpka þá farvegi sem skriður leiti í og leiðiveggjum.
Þar sem árfarvegir liggja í gegnum byggð er áhersla lögð á mótvægisaðgerðir, sem laga framkvæmdir eins vel og unnt er að náttúrulegu umhverfi og nýta þá möguleika sem gefist til að auka gildi umhverfisins, s.s. til útivistar.
Af mótvægisaðgerðum vegna Hlíðarendaár voru m.a. nefndir nýir göngustígar og lýsing við þá, nýr áningarstaður og ný göngubrú sem tengir saman útvistarsvæði sitt hvor megin árinnar. Einnig verður ráðist í umtalsverða gróðursetningu á framkvæmdasvæðinu, sem unnið verður að á næstu misserum.
Opnaður hefur verið nýr upplýsingavefur um framkvæmdirnar, sem nálgast má á forsíðu fjardabyggd.is