Anya Hrund, Jakob og Patrekur Aron slógu í gegn á Nótunni í Hörpunni í gær og hlaut Anya aðalverðlaun hátíðarinnar.
Framtíðin er björt í tónlistarlífinu
Anya Hrund Shaddock bætti enn einni rósinni í hnappagatið þegar hún hlaut verðlaunin Nótan 2017 á lokatónleikum í Hörpu í gær. Fyrir skömmu sigraði hún söngkeppni Samfés. Anya kom fram fyrir hönd Tónlistarskóla Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar og lék Clair de lune eftir Claude Debussy á píanó.
Anya var ekki eini keppandinn úr Fjarðabyggð því tveir ungir drengir úr Tónskóla Neskaupstaðar, þeir Jakob Kristjánsson og Patrekur Aron Grétarsson bræddu áhorfendur með flutningi sínum. Þeir eru báðir fæddir árið 2006 og léku saman fjórhent á píanó, lagið The Entertainer eftir Scott Joplin.
Nótan er uppskeruhátíð tónlistarskóla og er samstarfsverkefni Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum, Samtaka tónlistarskólastjóra, Tónastöðvarinnar, Töfrahurðar og Tónlistarsafn Íslands. Á síðasta ári bættist Sinfóníuhljómsveit áhugamanna í hópinn. Markmið hennar er víðtækt, allt frá því að styrkja ungt tónlistarfólk til listsköpunar og að efla listir, menningu og menntun í samfélaginu. Skipulag hátíðarinnar byggist á því að þátttakendur séu frá landinu öllu, á öllu aldursbili og efnisskráin endurspegli öll stig tónlistarnáms.
Hátíðin skiptist í þrjú stig. Fyrst eru atriði valin í tónlistarskólunum, t.d. af kennurum eða með forkeppni. Næsta stig eru svæðiskeppnir, t.d. er svæðiskeppni fyrir Norður- og Austurland. Í henni eru síðan valdir fulltrúar í lokastigið sem eru lokatónleikarnir í Hörpu.
Framtíðin er svo sannarlega björt hjá þessum glæsilegu tónlistarmönnum.