Fjarðabyggð undirritaði samning við Fjarskiptasjóð ásamt 25 öðrum sveitarfélögum um að ljúka ljósleiðaravæðingu landsins fyrir árslok 2026. Lengi hefur ríkt óvissa um hvort og hvenær, þúsundir heimila í landinu muni eiga kost á háhraðanetsambandi, sem er mikilvægt öryggismál og undirstaða nútíma búsetugæða. Með þessum samningum er sú óvissa ekki lengur fyrir hendi.
Framtíðin er ljós - Fjarðabyggð undirritar samning um ljósleiðaravæðingu
Fjarskiptastofa kannaði í vor áform fjarskiptafyrirtækja og opinberra aðila um uppbyggingu á ljósleiðara í öllu þéttbýli árin 2024 til 2026. Könnunin leiddi í ljós að slík áform náðu ekki til 4.438 viðfanga í 48 sveitarfélögum. Langflest eða 1.012 heimili eru ótengd í Fjarðabyggð.
,,Ljósleiðaravæðing í Fjarðabyggð er eitt stærsta verkefni í uppbyggingu innviða sveitarfélagsins á undanförnum árum og gegnir lykilhlutverki í því að tryggja örugga og hraða nettengingu fyrir heimili, fyrirtæki og þjónustu um allt svæðið. Þetta er okkur mikið kappsmál. Með því að ljósleiðaravæða alla Fjarðabyggð á tveimur árum erum við að stíga mikilvægt skref inn í framtíðina gagnvart búsetukosti, atvinnuuppbyggingu og auknum lífsgæðum." segir Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs.
„Undirritunin í dag markar mikil tímamót enda munu samningarnir stuðla að ljósleiðaravæðingu sem er fordæmalaus á heimsvísu. Þrátt fyrir að Íslendingar hafi náð eftirtektarverðum árangri í þessum efnum á undanförnum árum mun þessi lokahnykkur styrkja byggðir landsins, fjölga atvinnutækifærum og stuðla að auknu fjarskiptaöryggi um land allt svo um munar. Allt stuðlar þetta að aukinni samkeppnishæfni Íslands og eykur frelsi fólks til að búa og starfa þar sem það sjálft kýs,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
„Háhraða fjarskipti eru forsenda fyrir Íslendinga til þess að sinna störfum sínum, námi og hafa aðgang að þjónustu. Ljósleiðaravæðing á landsbyggðinni er eitt umfangsmesta byggðaverkefni síðari ára. Gott samstarf hefur verið milli ríkis og sveitarfélaga í þessu mikilvæga verkefni, að tengja landið allt ljósleiðurum. Samstarf um betri framtíð og öflugri innviði sem styrkja byggðir landsins, segir Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra.