Heilbrigðisráðuneytið, í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið, hefur sent frá sér leiðbeinandi viðmið um hvernig beri að túlka auglýsingar um takmörkun á samkomum vegna farsóttar og takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar þegar kemur að íþrótta- og æskulýðsstarfi barna, ungmenna og fullorðinna. Þessi viðmið koma til með að hafa talsverð áhrif á íþrótta- og æskulýðsstarf hér í Fjarðabyggð, sem og íþróttaiðkunn fullorðina.
Frekari breytingar á íþrótta- og æskulýðsstarfi í Fjarðabyggð
Frá og með sunnudeginum 22. mars taka eftirtaldar breytingar gildi:
- Líkamsræktarstöðvar: Allar líkamsræktarstöðvar Fjarðabyggð verða lokaðar.
- Íþróttasalir: Allir íþróttasalir í Fjarðabyggð verða lokaðir og það á einnig við um Fjarðabyggðarhöllina, en þó mun verða boðið upp á aðstöðu í Fjarðabyggðarhöllinni til að ganga á hlaupabrautinni í húsinu milli kl. 9 – 12 virka daga.
- Skíðasvæði: Skíðasvæðið í Oddsskarði verður lokað.
- Félagsmiðstöðvar: Félagsmiðstöðvar Fjarðabyggðar munu verða lokaðar þar til takmörkun skólastarfs lýkur.
- Íþróttaæfingar barna og unglinga: ÍSÍ, heilbrigðisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneyti hafa lagt til að hlé verði gert á öllu íþrótta- og æskulýðsstarfi barna og ungmenna, sem felur í sér blöndun hópa, nálægð við aðra og snertingu, þar til takmörkun skólastarfs lýkur.
- Íþróttaæfingar fullorðina: ÍSÍ, heilbrigðisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneyti hafa lagt til að hlé verði gert á á starfi sem felur í sér snertingu eða nálægð milli iðkenda sem er minni en 2 metrar, í samræmi við þær meginreglur sem fram koma í auglýsingu um takmörkun á samkomum og á meðan þær takmarkanir eru í gildi.
Uppfært 22.3.2020
Í samræmi við ákvörðun heilbrigðisráðherra og sóttvarnarlæknis þann 22. mars, um að takmarka samkomur enn frekar en áður hefur verið, hefur verið ákveðið að öllum sundlaugum Fjarðabyggðar verður lokað frá og með mánudeginum 23.mars, og eins lengi og ákvörðun ráðuneytisins er í gildi.
Það er ljóst að þarna er um að ræða afar íþyngjandi aðgerðir sem hafa áhrif á daglegt líf og afþreyingu íbúa. En þær eru teknar af yfirlögðu ráði, með hagsmuni íbúa að leiðarljósi og að ráðleggingum færustu sérfræðinga.
Í því ástandi sem nú ríkir eru þessar ráðstafanir erfiðar, enda mikilvægi hreyfingar mikið, ekki síst nú. Fjarðabyggð vill þess vegna hvetja íbúa til að halda áfram að hreyfa sig og huga vel að heilsunni.
- Íbúar eru hvattir til að nýta sér þær fjölmörgu gönguleiðir sem finna má víða í bæjarkjörnum Fjarðabyggðar. Kort af einhverjum gönguleiðum má finna með því að smella hér. Sérstaklega verður gætt að snjóhreinsun og hálkuvörnum á göngustígum þar sem því verður við komið og aðstæður leyfa
- Íþróttafélög í Fjarðabyggð eru hvött til að halda góðu sambandi við iðkendur sína og reyna að nýta sér tækninni til að viðhalda þeim mikilvæga félagslega þætti sem íþróttir hafa.