Fimmtudaginn 13. júní var tekin skóflustunga að nýjum búsetukjarna á Reyðarfirði með sex einstaklingsíbúðum og skammtímavistun fyrir fötluð börn. Í kjarnanum verður einnig rými fyrir starfsmenn til að þjónusta íbúa, setustofu fyrir íbúa og gesti ásamt tækjageymslu.
Skóflustunguna tóku Róbert Óskar Sigurvaldason, framkvæmdarstjóri R101, Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs, Þuríður Lillý Sigurðardóttir, bæjarfulltrúi og Hjördís Helga Seljan, bæjarfulltrúi. Ráðgert er að nýr búsetukjarni verði tekin í notkun um mitt næsta ár.
Fjármögnun verkefnisins er þegar tryggð með samþykki Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) og Fjarðbyggðar á veitingu stofnframlaga til byggingarinnar í samræmi við lög um almennar leiguíbúðir og lánsfjármögnun er einnig tryggð frá HMS.
Stjórn Brákar íbúðafélags hses. hefur samþykkt að taka yfir byggingu kjarnans með samningum við R101 og Fjarðabyggð. Brák mun þannig verða eigandi húsæðisins og leigja út húsnæðið en Fjarðabyggð mun reka alla þjónustu við íbúa búsetukjarnans.
,,Þetta er mjög stórt skref. Tímamót í þjónustu við fatlað fólk þar sem við erum með þessum búsetukjarna að gjörbylta þjónustugetu okkar við fatlaða einstaklinga og fjölskyldur þeirra. Þetta er einnig mikil tímamót í byggingarsögu Reyðarfjarðar þar sem þetta hús mun breyta ásýnd bæjarins með fallegri byggingu við fjölförnustu götu Reyðarfjarðar.“ Segir Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs.
"Það er mjög ánægjulegt og spennandi að fá að taka þátt í þessu verkefni, verktakar og aðrir hér í Fjarðabyggð hafa tekið þessu verkefni með íbúakjarnann með miklum velvilja og skilning. Við höfum lagt mikla áherslu á að nota heimamenn í sem flesta verkþætti, og það hefur gengið vonum framar. Fremstir þar í flokki eru Trévangur og Meta Pípulagnir, sem hafa verið okkur og íbúum hér í Fjarðabyggð til halds og trausts í áraraðir" sagði Róbert Óskar Sigurvaldason, framkvæmdarstjóri R101.
,,Með þessari framkvæmd erum við að fjölga íbúðum í búsetuþjónustu Fjarðabyggðar og stórbæta þjónustu við fatlað fólk, fötluð börn og fjölskyldur þeirra. Við hönnun búsetukjarnans verða fjölbreyttar þarfir íbúa hafðar að leiðarljósi. Nýjasta velferðartækni verður nýtt, sem gengur útá að viðhalda og auka öryggi, virkni og sjálfstæði fólks í daglegu lífi. Markmiðið með þessu er að styðja enn frekar við og styrkja sjálfstæði einstaklinga með stuðningsþarfir í sjálfstæðri búsetu“ sagði Aðalheiður Björk Rúnarsdóttir, stjórnandi félagsþjónustu Fjarðabyggðar.
Reyðarfjörður varð fyrir valinu vegna þess að hann er miðsvæðis og stutt í alla þjónustu. Einnig vegna nálægðar við Múlaþing, sem gefur möguleika á samþættingu á þjónustu.