Salthússmarkaðurinn hefur tekið að sér rekstur samkomuhússins á Stöðvarfirði ásamt Gestastofu Fjarðabyggðar í sumar. Hér má sjá Aðalheiði G. Guðmundsdóttur og Pál Björgvin Guðmundsson takast í hendur að lokinni undirritun samkomulags þess efnis.
Gestastofa Fjarðabyggðar í samstarfi við Salthússmarkaðinn
Samkomuhúsið opnaði formlega sl. föstudag með glæsilegri opnunarhátið. Auk þess sem flutningi Salthússmarkaðarins í þetta nýja húsnæði og opnun nýju gestastofunnar var fagnað, hóf göngu sína sýning á stórbrotnum austfirskum þokumyndum. Kom fjöldi manns saman að þessu þrefalda tilefni og samgladdist stöðfirska handverkssamfélaginu, sem rekið hefur Salthússmarkaðinn með myndarbrag undanfarin ár í gamla salthúsi staðarins. Nánar um hátíðina á facebook.com/fjardabyggd.is.
Gestastofa Fjarðabyggðar verður í nánu samstarfi við Uppplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn sem staðsett er í Brekkunni, steinsnar frá samkomuhúsinu. Ferðamenn geta nálgast almennar upplýsingar og aðstoð í gestastofunni, sem verður rekin verður samhliða Salthússmarkaðnum í sumar, kl. 11:00 til 17:00 alla daga vikunnar.
Endurreisn gamla samkomuhússins er liður í uppbyggingu á Stöðvarfirði sem önnur af tveimur ferðamannagáttum Fjarðabyggðar. Mikill fjöldi ferðamanna sækir Stöðvarfjörð heim á sumri hverju, sem þakka má ekki hvað síst aðdráttarafli Steinasafns Petru.