Héraðshátíð Stóru upplestrarkeppninnar fór fram í Tónlistarmiðstöð Austurlands á miðvikudag.
Glæsileg upplestrarkeppni á miðvikudag
Keppnin nær til nemenda úr 7. bekk og á héraðshátíðinni tóku 14 nemendur þátt. Þeir komu úr grunnskólunum í Fjarðabyggð auk tveggja úr Grunnskóla Breiðdalshrepps.
Keppnin fór fram í þremur umferðum. Í þeirri fyrstu voru kaflar úr sögunni um Bláa hnöttinn eftir Andra Snæ Magnason lesnir, í annarri voru ljóð eftir Steinunni Sigurðardóttur og í þeirri síðustu voru ljóð að eigin vali lesin. Kom þá í ljós að 7. bekkingar hafa sérstakt dálæti á Þórarni Eldjárn þar sem flest hinna völdu ljóða voru eftir hann.
Áður en keppnin hófst hafði Magnús Stefánsson, kynnir og stjórnandi, kynnt Steinunni Sigurðardóttur og keppendur og Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri, hélt stutt ávarp um mikilvægi læsis. Í upphafi hátíðar og eftir þriðju upplestrarumferðina voru frábær tónlistaratriði frá nemendum úr Tónlistarskóla Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar.
Þegar síðasta tónlistaratriðinu var lokið hafði dómnefnd ákveðið sig. Fyrst fengu allir þátttakendur viðurkenningarskjal, rós og bók með völdum ljóðum eftir Steinunni Sigurðardóttur. Fyrst var tilkynnt um þriðja sæti og var það Karitas Embla Óðinsdóttir úr Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar, þá annað sæti en það var Jóhanna Björg Sævarsdóttir úr Grunnskóla Mjóafjarðar og í lokin sigurvegarann en það var Blædís Birna Árnadóttir úr Grunnskóla Eskifjarðar.
Í dómnefnd voru þau Ingibjörg Einarsdóttir, Þóroddur Helgason, Almar Blær Sigurjónsson, Björg Þorvaldsdóttir og Halldóra Baldursdóttir.
Eins og Ingibjörg kom inn á í ávarpi, sem hún hélt áður en hún tilkynnti um verðlaunasætin, stóðu allir sig frábærlega. Glæsileg frammistaða hjá nemendunum, bæði þeim sem lásu og þeim sem sáu um tónlistaratriðin. Framtíðin er björt.