Veðurstofa Íslands hefur sent frá sér gula viðvörun vegna veðurs sem gengur yfir Austurland í nótt og á morgun. Gert er ráð fyrir talsverðum vindi og ofankomu, sem til að byrja með verður snjókoma, en breytist svo í rigningu þegar líður á morgundaginn. Íbúum er bent á að huga vel að lausamunum og niðurföllum áður en veðrið gengur yfir.
Vegna þessarar viðvörunar vill Fjarðabyggð árétta að vel er fylgst með aðstæðum ofan Eskifjarðar, og verður það eftirlit aukið vegna þessa veðurs. Mælingar síðustu daga benda þó til þess að á svæðinu sé allt með kyrrum kjörum.