Föstudaginn 10. febrúar var söngkeppni félagsmiðstöðva á Austurlandi, SamAust, haldin. Að þessu sinni fór keppnin fram í félagsheimilinu Skrúð á Fáskrúðsfirði.
Hæfileikaríkir unglingar á SamAust
SamAust er undankeppni Söngkeppni Samfés sem er landskeppnin, en efstu tvö sætin á SamAust vinna sér inn þátttökurétt í landskeppninni.
Alls tóku 11 atriði þátt og þar af þrjú frá Fjarðabyggð en það voru þær Anya Hrund Shaddock úr Hellinum, Jóhanna Gabriela Lecka úr Knellunni og Kasia Rymon Lipinska úr Atóm sem voru framlög félagsmiðstöðva Fjarðabyggðar. Það má segja að öll atriðin 11 hafi verið glæsileg og virkilega gaman að sjá hæfileikana sem búa í unga fólkinu okkar.
Sigurvegari kvöldsins var heimastúlkan Anya Hrund Shaddock úr félagsmiðstöðinni Hellinum Fáskrúðsfirði með frumsamið lag In the end. Þar með tryggði Anya sér sæti í landskeppninni sem haldin verður í Laugardalshöllinni 25. mars næstkomandi. Í öðru sæti var Hafdís Ýr frá félagsmiðstöðinni Þrykkjunni á Höfn en hún söng lagið Hollow.
Dómnefndin var vel skipuð en í henni voru þau Emmsjé Gauti, Elma Valgerður Sveinbjörnsdóttir og Svavar Pétur Eysteinsson betur þekktur sem Prins Póló.
Eftir keppnina steig svo sjálfur Emmsjé Gauti á stokk og skemmti sér og öðrum konunglega. Þess má geta að Emmsjé Gauti tók nokkrum sinnum svo kallað „crowd surfing“ en það er þegar listamaðurinn lætur sig detta á áhorfendurnar og lætur þá bera sig. Þegar Emmsjé Gauti lauk sínu atriði tók DJ Tadas við og þeytti hann skífum fram á nótt. Um 250 ungmenni mættu á söngkeppnina og ballið og voru þau sér og sínum félagsmiðstöðvum til mikils sóma.