Land skríður á tveimur svæðum um 1 til 2 sm. á dag í hlíðinni niður af Oddsskarði í Eskifirði. Fjallað var nýlega í fréttum RÚV um málið og rætt við m.a. Jón Björn Hákonarson, forseta bæjarstjórnar Fjarðabyggðar.
Hægst hefur á jarðskriðinu
Flóðaeftirlitsmenn Veðurstofunnar á Eskifirði fylgjast grannt með framgangi í hlíðinni, sem fór að gera áþreifanlega vart við sig í haust þegar veðurmælar Vegagerðarinnar við Oddsskarð urðu ítrekað óstarfhæfir. Ástæðan reyndist sú að vegstæðið var á hreyfingu með þeim afleiðingum að símastrengur mælanna slitnaði í sífellu.
Þar sem verst lætur hefur landið skriðið fram um rúma tvo metra frá því í nóvember sl. Að sögn Hjalta Sigurðssonar, flóðaeftirlitsmanns, hefur þó hægt á jarðskriðinu sem nam 2 til 3 sm. á dag fyrir áramót.
Að sögn Jóns Björns er bráðahætta ekki til staðar, en sveitarfélagið fylgist grannt með umfangi jarðskriðsins og hættustigi í samstarfi við Veðurstofuna.
Harpa Grímsdóttir, sérfræðingur hjá Veðurstofunni, fer yfir stöðu málsins og niðurstöður mælinga á íbúafundi, sem fram fer í grunnskólanum á Eskifirði miðvikudaginn 24. febrúar, kl. 20:00.