Björgunarsveitin Geisli á Fáskrúðsfirði fagnaði 50 ára afmæli sveitarinnar með því að koma Hafdísi í höfn, nýjum og fullkomnum björgunar- og sjúkrabáti. Páll Björgvini Guðmundsson, bæjarstjóri og Steinþór Pétursson, framkvæmdastjóri Fjarðabyggðarhafna, afhenda hér Grétari Helga Geirssyni, formanni Geisla, gjafabréf vegna kaupa á bátnum. Afhendingin fór fram í Skrúði þar sem slyslavarnadeildin Hafdís hélt Geisla veglega afmælisveislu í tilefni dagsins.
Hafdís komin í höfn
Hafdís kom til Fáskrúðsfjarðarhafnar í gær, en koma bátsins boðar nýja og betri tíma í öryggismálum sjómanna á Austfjörðum. Um yfirbyggðan hraðbát er að ræða sem náð getur allt að 40 sjómilna hraða, en til samanburðar má nefna að við ákjósanlegar aðstæður ná björgunarskip um 18 sjómílum.
Auk þess að vera hraðskreiður hentar báturinn sjúkraflutningum afar vel, þar sem hann skellur ekki á haffletinum á fullri ferði. Má þakka það nýju bátalagi sem skipasmíðastöðin Rafnar, framleiðandi bátsins, hefur hannað.
Mikið þrekvirki er fyrir björgunarsveit á stærð við Geisla að ráðast í svo umfangsmikið verk að fjármagna kaup á einum fullkomnasta björgunarbát sem völ er á, en fullbúinn bátur eins og Hafdís kostar um 65 m.kr.
Hefur björgunarsveitin á annað ár unnið óslitið að fjármögnun, en þökk sé rausnarlegum stuðningi skipasmíðastöðvarinnar, lækkaði kaupverð umtalsvert, eða í 40 m.kr.
Grétar Helgi þakkaði öllum styrktaraðilum fyrir góðan og mikilvægan stuðning, en auk Rafnars hafa m.a. Fjarðabyggðarhafnir, Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði (LVF) og Alcao Fjarðaál lagt málinu lið.
Þess má svo geta að fyrir afmælisveisluna í dag, hafði björgunarsveitinni tekist að safna svo til nægum fjárstuðningi. Vantaði að sögn Grétars Helga aðeins herslumuninn eða þrjár m.kr.
Sú gleði sem skein úr augum allra viðstaddra var því ósvikin, þegar Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri LVF, afhenti Grétari Helga tvö gjafabréf upp á samtals 3 m.kr. sem voru frá annars vegar LVF og hins vegar KFF, Kaupfélagi Fáskrúðsfirðinga. Áður hafði LVF lagt fram 6 m.kr. til kaupa á bátnum.
Hér að neðan má sjá mynd af Hafdísi ásamt nokkrum myndum af gjafaafhendingum til Geisla, á sviðinu í Skrúði í dag.
Nálgast má svo fleiri myndir af Hafdísi á FB síðu Geisla.