Bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkti í dag fjölskyldustefnu Fjarðabyggðar. Stefnan er sú fyrsta sinnar tegundar sem sveitarfélagið innleiðir og samþættir á heildstæðum grunni þjónustu Fjarðabyggðar innan fræðslu-, félags-, frístunda- og íþróttamála, með áherslu á markvissa ráðgjöf og forvarnir.
Heildstæð stefnumörkun í málefnum fjölskyldunnar
Framtíðarsýn nýju fjölskyldustefnunnar er að þjónusta Fjarðabyggðar styður við og eflir fjölskyldur í sveitarfélaginu með það í huga að auka tækifæri einstaklinganna og valkosti í lífinu. Með fjölskyldu er átt við þá einstaklinga sem sveitarfélagið þjónar og aðstandendur.
Þá segir m.a. í leiðarljósi stefnunnar að sterkar, sjálfstæðar og ábyrgar fjölskyldur séu grunnur sterks og öflugs samfélags og að sveitarfélagið geti haft áhrif á forsendur fjölskyldunnar til að dafna og bera ábyrgð á daglegri virkni sinni.
Frumkvæði að mörkun stefnunnar hafði Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri. Að stefnumörkuninni kom breiðskipaður samráðshópur sem í áttu sæti foreldrar, ungt fólk og sérfræðingar í þeim málaflokkum sem vinnan snerti. Vinnu vegna faglegra stefnuþátta leiddi Hrönn Pétursdóttir, ráðgjafi.
Að sögn Páls Björgvins voru það einkum þrír þætti sem horft var til við stefnumörkunina. „Mikilvægt er fyrir sveitarfélagið að það leggi sitt af mörkum til Fjarðabyggðar sem eftirsóknarverðs og fjölskylduvæns samfélags. Það þýðir að þjónustuframboð verður að vera í takt við þær þarfir sem eru á hverjum tíma til staðar hjá einstaklingum og fjölskyldum þeirra. Það þýðir jafnframt að við verðum að meta þarfir einstaklinga út frá þörfum viðkomandi og einnig verða virk úrræðin að vera til staðar ef styðja þarf einstaklinga og fjölskyldur til betri lífsgæða og þátttöku í samfélaginu.“
Fjölskyldustefnan greinist út frá meginmarkmiði niður í sex stefnuþætti, sem eru svo aftur útfærðir í markmið og leiðir. Nálgast má stefnuna í heild sinni á vef Fjarðabyggðar, fjardabyggd.is undir Stjórnsýsla/stjórnkerfið.
Stefnuþættirnir eru:
- Virðing og lausnamiðuð nálgun verði grundvöllur allra samskipta, bæði við fjölskyldur og samstarfsaðila.
- Þjónustan verði fjölbreytt og einstaklingsmiðuð til að mæta sértækum þörfum ólíkra fjölskyldna og um leið til samræmis við ákvæði laga í.
- Þjónusta við fjölskyldur verði heildstæð, samþætt og samræmd.
- Ákvörðun um veitta þjónustu miði að því að jafnræðis sé gætt og hagsmunir notandans verði hafðir að leiðarljósi, m.a. með því að tryggja góða, fyrirbyggjandi, áreiðanlega, skilvirka og til lengri tíma hagkvæma þjónustu.
- Persónutengd þjónusta verði mótuð eftir þörfum og aðstæðum og veitt í nærumhverfi fjölskyldunnar og með fjölskylduvænum hætti, eins og kostur er.
- Þjónustuáherslur miði að því að gera fjölskyldur hæfari til að mæta þjóðfélagslegum og/eða persónulegum breytingum.