mobile navigation trigger mobile search trigger
24.05.2019

Heimsókn 6. bekkinga til Mjóafjarðar

Fimmtudaginn 23. maí fóru nemendur úr 6. bekkjum grunnskólanna í Fjarðabyggð í fræðslu- og skemmtiferð til Mjóafjarðar.

Heimsókn 6. bekkinga til Mjóafjarðar

Ekið var yfir Mjóafjarðarheiði og sem leið liggur út í Brekkuþorp þar sem heimamenn tóku á móti nemendum með kostum og kynjum. Nemendur fengu fræðslu um staðinn og sögu hans og fóru síðan í heimsókn í fiskverkun Ernu Ólafar Ólafsdóttur og Sævars Egilssonar þar sem nemendur fræddust um verkunina og sáu ýmsar gerðir af fiskum og lítinn selskóp. Þá var gengið upp á Höfða ofan við Brekkuþorpið og síðan haldið niður í fjárhúsin í Brekku þar sem Róshildur Ingólfsdóttir, Jóhanna Lárusdóttir og Sigfús Vilhjálmsson tóku á móti hópnum. Nemendur fengu að ganga um húsin og heilsa upp á nýfædd lömbin og fallegar íslenskar hænur sem eru í áföstu húsi. Þá var haldið í skólahúsið á Sólborg þar sem grillað var ofan í hópinn og eftir að gert heitum pylsum góð skil, brugðu nemendur á leik í góða veðrinu áður en haldið var af stað heim. 

Yndislegur dagur í alla staði og bestu þakkir til Mjófirðinga fyrir frábærar móttökur og til bílstjóra Tanna travel.

Frétta og viðburðayfirlit