Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, ásamt Valgeir Ægi Ingólfssyni atvinnu- og þróunarstjóra, Önnu Marín Þórarinsdóttur stjórnanda fræðslumála og skólaþjónustu og Valborgu Ösp Árnadóttur verkefnastjóra brothættra byggða hjá Austurbrú, heimsóttu hluta af stofnunum og fyrirtækjum á Breiðdalsvík, miðvikudaginn 18. október. Því miður vannst ekki tími til að heimsækja alla þá fjölbreyttu og áhugaverðu starfsemi sem er í gangi á Breiðdalsvík að þessu sinni.
Heimsókn bæjarstjóra til Breiðdalsvíkur
Heimsóknin hófst í þjónustumiðstöðinni þar sem Sigurður Elísson tók á móti bæjarstjóra ásamt Ara Sigursteinssyni, bæjarverkstjóra. Sigurður sýndi aðstöðuna sem bæjarstarfsmenn hafa á Breiðdalsvík og er óhætt að segja að sú aðstaða er sennilega ein sú snyrtilegasta á landinu, allt flokkað og merkt á skipulegan hátt. 😊
Verkefni þjónustumiðstöðvanna eru fjölmörg, en starfsmenn þeirra sjá t.d. um viðhald gatnakerfis Fjarðabyggðar, göngustíga, snjómokstur og viðhald tækja svo eitthvað sé nefnt.
Í leik- og grunnskólanum tók Steinþór Snær, skólastjóri á móti hópnum. Farið var um húsnæðið og starfsemin kynnt. Leik- og grunnskólinn á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði eru samreknir ásamt tónlistaskólanum. Þar eru 33 nemendur í 1. til 10. bekk og 15 nemendur í leikskólanum. Kennt er til skiptis á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði. Kennt er í Breiðdalsvík á mánudögum og miðvikudögum og Stöðvarfirðir er kennt á þriðjudögum og fimmtudögum. Á föstudögum eru nemendur í sínum heimaskóla.
Kíkt var inn í kennslustund hjá eldri bekkingum, sem voru í tíma í stærðfræði og annar hópur var í ritgerðartíma. Rætt var við nemendur um skólastarfið og fengum við innsýn inn í kennsluna. Einnig var kíkt í tíma í tónlistaskólanum. Þar var Jakob Smári Magnússon kennari og bassaleikari að kenna nemendum á hljóðfæri. Tóku þau lagið Blindsker, eftir Bubba Morthens, en Jakob Smári var í hljómsveitinn Das Kapital sem flutti lagið upphaflega, en hann er einn þekktasti bassaleikari landsins.
Þá var farið og skoðuð aðstaðan í Íþróttahúsinu og þar tók Jóhanna á móti okkur og kynnti starfsemina í húsinu. Sagði hún m.a. frá því að öflug karate kennsla er í byggðalaginu. Það eru ekki allir sem vita af því en á Breiðdalsvík er búsett einn af fremstu karateþjálfurum landsins sem m.a. hefur þjálfað landsliðið með reglubundnum hætti.
Elís Pétur Elísson og konan hans Helga Rakel Arnardóttir tóku á móti hópnum í Frystihúsinu, sem í dag er tónleika- og viðburðarsalur sem tekur allt að 400 manns í sæti. Bjartmar og Bergrisarnir spiluðu þar um daginn og mun Ásgeir Trausti spila þar 27. október næstkomandi.
Þau hjón eru ekki einungis í viðburðarhaldi, því þau reka einnig útgerðina og fiskvinnsluna Goðaborg, Beljanda brugghús og gamla Kaupfjelagið.
Goðaborg gerir út þrjá báta Silfurborgina sem er dragnótabátur, Ella P og Áka í Brekku sem eru línubátar. Í fiskvinnslunni er fiskur fullunninn, bæði ferskur og harðfiskur. Einnig geta hundaeigendur fengið voffagott fyrir sína fjórfættlinga.
Beljandi er brugghús/bar sem stofnað var árið 2017 og framleiðir að jafnaði fjóra til fimm týpur af bjór. Bjórinn er mest seldur á staðnum, en það er einnig hægt að fá hann á veitingastöðum, hótelum og krám á Austfjörðum yfir sumarmánuðina. Eftirspurn hefur verið langt umfram framboð af vörum Beljanda og var nýverið fenginn nýr búnaður til að auka framleiðslugetuna.
Gamla Kaupfjelagið hafa heimamenn og gestir sótt þjónustu sína í rúmlega 60 ár og í dag er þar rekið kaffihús og verslun.
Að lokum var Breiðdalssetrið heimsótt og tók þar á móti okkur Arna Silja Jóhannsdóttir og Hákon Hansson, dýralæknir og fyrrverandi oddviti Breiðdalshrepps.
Í dag er þar Rannsóknarsetur Háskóla Ísland þar sem megináhersla er lögð á jarðvísindi og málvísindi. Helstu verkefni lúta að rannsóknum og miðlun rannsóknarniðurstaðna, kennslu og leiðbeiningum framhaldsnema í jarðvísindum. Starfsemi rannsóknarsetursins byggir á sterkum stoðum Breiðdalssetur, sem starfrækt hefur fræða- og menningarsetur í Breiðdal um árabil.
Á setrinu er einnig haldið utan um borkjarnasafn Náttúrufræðistofnunar Íslands í gamla sláturhúsinu á Breiðdalsvík. En þar varðveitir NÍ borkjarna sem teknir hafa verið úr borholum víðast hvar á landinu í framkvæmda- eða rannsóknaskyni.
Á fastasýningu setursins er hægt að skoða úrval fallegra steina sem fanga fjölbreytta jarðfræði Austurlands og kynna sér ævi og störf tveggja merkra vísindamanna með sterk tengsl við Breiðdal, þeirra George Walker og Stefáns Einarssonar.
Næstu vikur mun Jóna Árný sem tók við sem bæjarstjóri Fjarðabyggðar í vor fara um byggðakjarnana og heimsækja stofnanir sveitarfélagsins og ýmis fyrirtæki sem starfa í samfélaginu okkar. Áhugasömum er bent á að vera í sambandi við upplýsingafulltrúa Fjarðabyggðar á netfangið haraldur.haraldsson@fjardabyggd.is