mobile navigation trigger mobile search trigger
20.11.2023

Heimsókn bæjarstjóra til Stöðvarfjarðar

Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, ásamt Önnu Marín Þórarinsdóttur, stjórnanda fræðslumála og skólaþjónustu, Valborgu Ösp, verkefnastjóra Sterks Stöðvarfjarðar og Haraldi Líndal, upplýsingafulltrúa heimsóttu hluta af stofnunum og fyrirtækjum á Stöðvarfirði, fimmtudaginn 9. Nóvember s.l.

Heimsókn bæjarstjóra til Stöðvarfjarðar
Valdimar Másson, skólastjóri Tónlistaskólans, Jóna Árný, bæjarstjór, Anna Marín Þórðardóttir, stjórnandi fræðslumála og skólaþjónustu og Steinþór Snær, skólastjóri Breiðdals- og Stöðvarfjarðarskóla

Heimsóknin hófst Breiðdals- og Stöðvarfjarðaskóla en eins og nafnið gefur til kynna þá eru leik- og grunnskólinn samreknir. Steinþór Snær, skólastjóri tók á móti okkur, og settumst við niður með hluta af starfsfólkinu í kaffitímanum og málin rædd m.a. samgöngur, vetrarþjónusta, húsnæðismál og fjarskipti.  Þess má geta að annan hvern fimmtudag gera starfsmenn sér dagamun og mæta með kökur og jafnvel brauðtertur með kaffinu, og vorum við svo heppin að þennan dag voru glæsileg brauðterta og kaka á boðstólnum. 😊

Að loknu spjalli fór Steinþór með okkur um húsnæðið og kynnti starfsemina. Leik- og grunnskólinn á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði eru samreknir ásamt tónlistaskólanum. Þar eru 33 nemendur í 1. til 10. bekk og 15 nemendur í leikskólanum. Kennt er til skiptis á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði þar sem kennt er á  Breiðdalsvík á mánudögum og miðvikudögum og á Stöðvarfirði  á þriðjudögum og fimmtudögum. Á föstudögum eru nemendur í sínum heimaskóla. Kíkt var inn í kennslustund hjá eldri og yngri bekkingum, en þau eldri voru á fullu að undirbúa leiksýningu fyrir árshátíðina sem fram fór fimmtudaginn 16. nóvember. 

Eftir heimsóknina í Breiðdals- og Stöðvarfjarðaskóla var haldið yfir í Gallerí Snærós, en þar tók á móti okkur Rósa Valtingojer. Þess má geta að galleríið verður 35 ára, 6. desember næstkomandi og er eitt elsta gallerí á landsbyggðinni.  Að Gallerí Snærós standa listakonurnar og mæðgurnar Sólrún Friðriksdóttir og Rósa Valtingojer. Galleríið hefur verið starfandi frá árinu 1988, í fyrstu á vegum Sólrúnar og eiginmanns hennar Ríkharðs Valtingojer, listamanns og grafíker en hann lést árið 2019.

Eftir heimsóknina í Gallerí Snærós, var farið í hádegismat með Jaspis - Félagi eldri borgara á  Stöðvarfirði sem rekur mjög öflugt félagsstarf fyrir eldir borgara á staðnum. Félagsstarfið er staðsett í Balaborg og þar er opið tvisvar í viku. Þar gefst eldri borgurum færi á að mæta og fá heitan mat í hádeginu annan daginn og kaffihlaðborð hinn daginn. Þar gefst einnig tækifæri á að hittast, spila, vinna handavinnu og ýmislegt fleira. Á borðstólnum að þessu sinni voru góðar fiskibollur og samtal sem spannaði öll þau fjölmörgu mál sem snerta daglegt líf á Stöðvarfirði.

Eftir hádegismatinn var haldið yfir í Landatanga, en það er rekið af Margeiri Margeirssyni. Landatangi er verktakafyrirtæki í fjölbreyttri þjónustu en þar er einnig rekið verkstæði þar sem gjarnan er haft á orði að ekkert verkefni sé svo smátt eða stórt að þeir geti ekki tekið það að sér.

Hittum við þar ungan húsasmið, Friðrik Jósefsson, sem er að koma sér upp smíðaverkstæði í hluta af húsnæði Landatanga, og til stendur að smíða innréttingar, glugga og hurðir og framtíðar markmiðið er að fara smíða húsnæði. Í samtölum við hann kom fram að það hafi aldrei komið annað til greina en að nýta menntunina sína á svæðinu til að byggja upp.

Friðrik Jósefsson

Þjónustumiðstöðin á Stöðvarfirði var einnig heimsótt og þar tók á móti Bjarni Stefán Vilhjálmsson, starfsmaður Fjarðabyggðar. Sýndi hann okkur aðstöðuna og sagði frá þeim verkefnum sem þjónustumiðstöðin sinnir, eins og gefur að skila þá eru þau mjög fjölbreytt og breytileg eftir árstímum. Þar er m.a. sinnt viðhaldi á gatnakerfi Fjarðabyggðar, göngustígum, snjómokstur og viðhald tækja svo eitthvað sé nefnt í viðbót við ýmsa umsýslu sem tengist þeim fjölmörgu bátum sem nýta höfnina á Stöðvarfirði.

Að því loknu var haldið yfir í Sköpunarmiðstöðina og fengum við kynningu hjá Vincent Wood á þeirri miklu starfsemi sem þar fer fram og hefur verið að byggjast upp frá því 2011. Sköpunarmiðstöðin er kannski mest þekkt víða um heim fyrir þá aðstöðu sem þau skapa listamönnum sem vilja koma á Stöðvarfjörð og vinna í sinni listsköpun. Einnig hafa í Sköpunarmiðstöðinni reglulega verið haldnir ýmsir viðburðir þar sem kastljósið oftar en ekki hefur verið á tónlist, nýsköpun og þróun. Fjölbreyttri aðstöðu og ýmiskonar verkstæði hefur verið komið upp í Sköpunarmiðstöðinni og má þar helst nefna trésmíðaverkstæði, járnsmíðaverkstæði, keramikverkstæði og prentverkstæði auk hljómfagurs tónleikasalar og hljóðversins Stúdíó Siló. Í Stúdíóinu hjá Vinny (eins og hann er kallaður) hafa margir austfirskir hljómlistarmenn komið til að taka upp sína tónlist sem og hljómlistarmenn víða að úr heiminum.

Kaffi Kvörn er nýsköpunarfyrirtæki sem var stofnað af Lukasz Stencel og er staðsett í Sköpunarmiðstöðinni, en Lukasz vann einmitt í fiski í sama húsnæði þegar hann kom fyrst til Íslands. Lukasz byrjaði að fikta við kaffibrennslu, fyrst með lítilli vél heima hjá sér. Hann bjó til sína eigin með því að nota brennara úr brauðrist og hitakönnu. Í framhaldi af því fékk hann pöntun frá Íslenskri erfðagreininguum að kaupa 50-60 kíló af kaffi. Þá va ekki aftur snúið. Í dag er framleiðslan um 400 - 500 kg á mánuði. Stefnt er að því að koma framleiðslunni í 300 kg. á dag.

Undirbúningur á framleiðslueldhúsi er í fullum gangi í Sköpunarmiðstöðinni. En það er Silja Lind sem fer fyrir því verkefni. Vonir standa til að það verði hægt að byrja á að brjóta niður veggi strax á nýju ári og samhliða þessu verður svo farið í að innrétta fyrir kaffibarinn, en til stendur að opna nýtt kaffihús, og geta gestir kaffibarsins fylgst með því sem er að gerast í eldhúsinu í gegnum glugga sem skilur eldhúsið og kaffihúsið að.

Að lokum var Steinasafn Petru heimsótt. Steinasafn Petru er stórt og glæsilegt steinasafn í einkaeigu. Unnur Sveinsdóttir og Petra Sveinsdóttir tóku þar á móti okkur, en þær systur eru afkomendur Petru Sveinsdóttur, og nú hefur þriðja kynslóðin tekið við rekstrinum, en hann er í höndum Unnar.  Stofnandi þess, Petra Sveinsdóttir, safnaði steinum í fjöllunum við Stöðvarfjörð frá barnæsku og í áranna rás bættist mikið við safnið. Nú fyllir safnið og minjagripasalan húsið hennar Petru og garðinn, sem orðinn er hluti af safninu. Steinasafn Petru er stærsta steinasafn í einkaeigu í Evrópu og jafnvel víðar. Safnið er einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna á Austurlandi, en vel yfir 20.000 gestir heimsóttu safnið síðasta sumar. Safnið endurspeglar vel jarðfræðilega sérstöðu Austurlands sem eins elsta hluta landsins. Á næsta ári er svo stór áfangi í sögu safnsins en þá eru 50 ára frá því að Petra opnaði hús sitt fyrir gestum. 

Unnur Sveinsdóttir og Jóna Árný Þórðardóttir

Framundan hjá verkefnastjóra ,,Sterks Stöðvarfjarðar“ er svo kynning á styrkjum frá Orkustofnun til orkusparnaðar, þrýsta á ljósleiðara á Stöðvarfjörð og svo er stefnt á að opna fyrir umsóknir í Frumkvæðissjóð Sterks Stöðvarfjarðar fljótlega í byrjun næsta árs.

Næstu vikur mun Jóna Árný sem tók við sem bæjarstjóri Fjarðabyggðar í vor halda áfram ferð sinni um byggðakjarnana og heimsækja stofnanir sveitarfélagsins og ýmis fyrirtæki sem starfa í samfélaginu okkar. Á fimmtudaginn næst komandi munum við heimsækja Neskaupstað. Áhugasömum er bent á að vera í sambandi við upplýsingafulltrúa Fjarðabyggðar á netfangið haraldur.haraldsson@fjardabyggd.is

Fleiri myndir:
Heimsókn bæjarstjóra til Stöðvarfjarðar
Jóna Árný ásamt nemendum Breiðdals- og Stöðvarfjarðarskóla
Heimsókn bæjarstjóra til Stöðvarfjarðar
Jóna Árný ásamt nemendum Breiðdals- og Stöðvarfjarðarskóla
Heimsókn bæjarstjóra til Stöðvarfjarðar
Heimsókn bæjarstjóra til Stöðvarfjarðar
Valborg Ösp, verkefnastjóri Sterks Stöðvarfjarðar, Rósa Valtingojer í Gallerí Snærós og Jóna Árný
Heimsókn bæjarstjóra til Stöðvarfjarðar
Valborg Ösp, Hlíf Herbjörnsdóttir, Jóna Árný, Þórunn Björg Pétursdóttir og Sara Jakobsdóttir
Heimsókn bæjarstjóra til Stöðvarfjarðar
Bjarni Stefán Vilhjálmsson, starfsmaður þjónustumiðstöðvarinnar og Jóna Árný
Heimsókn bæjarstjóra til Stöðvarfjarðar
Jóna Árný og Margeir Margeirsson
Heimsókn bæjarstjóra til Stöðvarfjarðar
Jóna Árný skoðar kaffibaunir hjá Lukasz Stencel
Heimsókn bæjarstjóra til Stöðvarfjarðar
Valborg Ösp, Jóna Árný, Vincent Wood hjá Sköpunarmiðstöðinn, Lukasz Stencel, hjá Kaffi Kvörn og Silja Lind Þrastardóttir og verkefnistjori yfir eldhúsinu, Fræ Sköpunareldhús

Frétta og viðburðayfirlit