Mánudaginn 8. apríl síðastliðin komu forsvarsmenn Verkmenntaskóla Austurlands þau Eydís Ábjörnsdóttir, skólameistari og Birgir Jónsson, gæða- og verkefnastjóri á fund bæjarráðs. Á fundinum var meðal annars farið yfir málefni skólans, helstu áskoranir og gengi skólans.
Heimsókn frá Verkmenntaskóla Austurlands
Aukning hefur verið í nemendafjölda á milli ára og býður Verkmenntaskólinn nú uppá ýmsar verk- og bóknámsbrautir og er eini verknámsskólinn frá Akureyri til Selfoss. Á vorönn 2024 voru innritaðir 419 nemendur og þar af 120 í dagsskóla.
“Það er mjög mikilvægt að gott samtal og samstarf sé við Fjarðabyggð og aðra hagaðila í samfélaginu. Það er allra hagur að í sveitarfélaginu sé öflugur framhaldsskóli. Það er ekki sjálfgefið og því þurfum við að vinna vel saman, skóli, atvinnulíf og sveitarfélag. Við erum eitt samfélag.” Segir Eydís Ásbjörnsdóttir, skólameistari Verkmenntaskólans.
Ragnar Sigurðsson formaður bæjarráðs segir að tilgangur þess að fá forsvarsmenn skólans á fund bæjarráðs sé að efla samráð og samtal við hagaðila í sveitarfélaginu. Verkmenntaskólinn er lykilstofnun í okkar samfélagi og mikilvægt að hafa gott aðgengi í verknám á svæðinu.
Rannsóknir hafa sýnt að þeim mun lengur sem ungt fólk getur verið í sinni heimabyggð við nám, þá eru þau þeim mun líklegri til að snúa heim að loknu framhaldsnámi.
Skólinn er sífellt að endurskoða sig til að mæta þörfum atvinnulífsins, sem birtist í auknu námsframboði, möguleikum á fjar- og helgarnámi svo eitthvað sé nefnt. Ásamt öflug kynning og markaðssetning hefur skilað sér í fjölgun nemenda í verknámi sem er mjög mikilvægt enda vöntun á iðnmenntuðu starfsfólki innan atvinnulífsins.
Á morgun laugardaginn 13. apríl verður Tæknidagurinn fjölskyldunnar haldinn í húsnæði Verkmenntaskóla Austurlands á Norðfirði. Er dagurinn tileinkaður tækni, vísindum, nýsköpun og þróun á Austurlandi og er dagskráin sniðin að öllum aldurshópum. Þetta er í níunda sinn sem Tæknidagurinn er haldinn og nú að vori.
Viðburðir verða í þremur byggingum: Í íþróttahúsinu á Norðfirði og í verknáms- og bóknámshúsum VA. Sérstaka athygli að þessu sinni vekur Vísindasmiðja Háskóla Íslands en hún var síðast með okkur árið 2019 og erum við því að endurnýja kynnin. Vísindasmiðjan mun bjóða upp á ýmsar óvæntar uppgötvanir og skemmtilegar tilraunir fyrir alla fjölskylduna s.s. teiknirólu, syngjandi skjál, þrautir, dulkóðun, hljóðtilraunir, teikniþjarkar og fjölmargt fleira.