Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra heimsótti Fjarðabyggð í síðustu viku og kynnti sér m.a. ofanflóðamannvirki í sveitarfélaginu og þau svæði sem eftir á að verja. Með ráðherra í för voru fulltrúar frá Veðurstofu Íslands, Ofanflóðasjóði og Framkvæmdasýslu ríkisins auk Jóns Björns Hákonarsonar, bæjarstjóra Fjarðabyggðar, fulltrúum úr bæjarráði og eigna-skipulags- og umhverfisnefnd Fjarðabyggðar.
Heimsókn Umhverfisráðherra til Fjarðabyggðar
Yfirferð ráðherra hófst á Norðfirði og voru skoðuð þau ofanflóðamannvirki sem þar hafa verið reist, auk þeirra sem unnið er að og þau svæði sem á eftir að verja. Þaðan var haldið á Eskifjörð þar sem skoðuð voru ofanflóðamannvirki við Bleiksá, Ljósá og Hlíðarendaá ásamt svæðinu við Lambeyrará og Grjótá, sem er síðasti árfarvegurinn á Eskifirði sem á eftir að verja. Einnig fór hópurinn og skoðaði aðstæður á Oddsskarðsvegi þar sem vart varð við jarðsig í lok desember. Þaðan var haldið á Fáskrúðsfjörð og ofanflóðamannavirki þar skoðað.
Seinnipartinn áttu svo fulltrúar Fjarðabyggðar fund með gestunum, þar sem farið var yfir þau verkefni sem eru fyrirliggjandi varðandi ofanflóðavarnir í Fjarðabyggð.
„Þessi ferð og fundurinn í kjölfarið voru vel heppnuð. Við komum á framfæri okkar áherslumálum hvað varðar ofanflóðavarnir og þau verkefni sem framundan eru og unnist hafa hér. Ljóst er að vinna þarf að því að gera nýtt hættumat vegna ofanflóða fyrir Eskifjörð, í ljós þess sem þar gerðist í desember, einnig þarf að fara í gerð hættumats vegna mögulegra krapaflóða á Stöðvarfirði“ sagði Jón Björn að fundi loknum.
„Við komum einnig á framfæri þeirri eindregnu ósk bæjaryfirvalda í Fjarðabyggð að reynt verði með öllum ráðum að tryggja áframhald og samfellu í uppbyggingu ofanflóðamannvirkja í Fjarðabyggð, sem og annarsstaðar á landinu. Nú eru framkvæmdir að fara í gang við Lambeyrará og svo þarf að fara beint í að verja í Grjótá. Á Norðfirði eru framkvæmdir við Snið- og Bakkagil vel á veg komnar og þá er eftir síðasti áfanginn neðan við Nes- og Bakkagil. Besti kosturinn, er að okkar mati, ef hægt væri að hafa samfellu í framkvæmdum við ofanflóðamannvirki í Fjarðabyggðar, þannig að þegar þeim framkvæmdum sem nú eru í gangi lýkur, verði hægt að hefjast handa við næstu áfanga og þannig ljúka flestu á sem skemmstum tíma. Þannig tryggjum við öryggi okkar góða samfélags í Fjarðabyggð“ sagði Jón Björn að lokum.