mobile navigation trigger mobile search trigger
25.04.2023

Héraðshátíð Stóru Upplestrarkeppninnar í Fjarðabyggð

Héraðshátíð Stóru Upplestrarkeppninnar í Fjarðabyggð fór fram við hátíðlega athöfn í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði mánudaginn 24. apríl. Fjölmenni var á hátíðinni eða um 80 manns og mikið klappað fyrir frábærum lesurum. 

Héraðshátíð Stóru Upplestrarkeppninnar í Fjarðabyggð
Hekla Bjartey Davíðsdóttir, Eskifjarðarskóli, Styrmir Snorrason, Nesskóli og Sólný Petra Þorradóttir, Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar

Stóra upplestrarkeppnin hófst í skólunum 16. nóvember síðastliðinn, líkt og undangengin ár, á degi íslenskrar tungu,  fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Við tóku síðan æfingar í öllum 7. bekkjum skólanna, þar sem upplestur var þjálfaður, hugað að raddstyrk, hljómblæ, túlkun, framkomu, sambandi við áheyrendur og fleiri þáttum. Undankeppnir voru haldnar í skólunum þar sem  nemendur frá skólunum unnu sér inn rétt  til að keppa á Héraðshátíðinni.  

Dagskrá hátíðarinnar var fjölbreytt og það var einstaklega gaman að hlýða á frábæran upplestur. Auk upplestrarins voru tvö tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Eskifjarðar og Reyðarfjarðar. María Dögg Valsdóttir spilaði Whirling snowflake Waltz á píanó og Adríana Íris Hrannarsdóttir og Iðunn Elísa Jónsdóttir spiluðu saman á píanó Dance class.

Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri flutti ávarp sem og Jón Knútur Ásmundsson, rithöfundur, en hann veitti einnig keppendum bókaverðlaun, viðurkenningar og rósir með aðstoð umsjónarmanns keppninnar Bjargar Þorvaldsdóttur. Íslandsbanki veitti verðlaun fyrir þrjú efstu sætin. 

Dómnefndin var skipuð Jarþrúði Ólafsdóttur, sem jafnframt er formaður dómnefndar, Berglindi Ósk Guðgeirsdóttur og Sigurbirni Marinóssyni. Þegar þau tilkynntu úrslitin nýttu þau tækifærið og dáðust að frammistöðu nemenda sem stóðu sig öll einstaklega vel.

Sigurvegarar héraðshátíðarinnar voru:

  1. sæti Styrmir Snorrason , Nesskóla
  2. sæti Hekla Bjartey Davíðsdóttir, Eskifjarðarskóla
  3. sæti Sólný Petra Þorradóttir Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar
Fleiri myndir:
Héraðshátíð Stóru Upplestrarkeppninnar í Fjarðabyggð

Frétta og viðburðayfirlit