Nýtt safnaleiðsagnarkerfi verður tekið formlega í notkun og einnig verður boðið upp á söngatriði og sögur frá stríðsárunum.
Hernámsdagurinn verður haldinn á sunnudag
Hernámsdagurinn er haldinn hátíðlegur vegna þess að 1. júlí 1940 bar breska herinn að landi á Reyðarfirði og var það hluti af hernámi Íslands. Reyðarfjarðarþorp sem þá taldi rétt rúmlega 300 íbúa á þessum tíma en á stríðsárunum margfaldaðist íbúafjöldinn og framfarir og atvinnuuppbygging varð gríðarhröð í kjölfarið.
Á sunnudaginn verður hernámsins minnst með dagskrá.
Kl. 13:00 verður safnið opnað og nýtt safnaleiðsagnarkerfi tekið í notkun. Það var sett upp í samstarfi við íslenska fyrirtækið Locatify og felst í því að blátannartækni er notuð til þess að koma upp sjálfvirkri hljóðleiðsögn í gegnum síma. Safngestir ganga þá um safnið og eru leiddir í gegnum hljóðstöðvar. Hægt er að fá síma og heyrnartól endurgjaldslaust á safninu eða hala smáforritinu niður á eigin síma. Þetta er svo sannarlega spennandi tækni og við hvetjum alla til að koma og kynna sér þessa nýju viðbót í safnið.
Kl. 14:00 hefst eiginleg dagskrá með söngatriðum. Þau Þórunn Erna Clausen, Jóhanna Seljan Þóroddsdóttir og Andri Bergmann Þórhallsson flytja lög frá stríðsárunum við undirleik Andra. Þóroddur Helgason mun síðan segja sögur frá stríðsárunum á Reyðarfirði á sinn eina og sanna hátt. Kaffi og kökur verða í boði safnsins.
Ný tæki verða einnig til sýnis en skriðdrekinn sem sést á myndinni er nýjasti safngripurinn. Hann var fenginn úr Berufirðinum, frískaður upp og er nú kominn til sýnis fyrir utan safnið.
Hvetjum fólk til að koma og taka þátt í þessum hátíðisdegi!