Ríkisstjórnin kynnti í gær hertar sóttvarnaraðgerðir sem miða að því að stemma stigu við hraðri útbreiðslu COVID – 19 á Íslandi. Þessar ráðstafanir taka gildi þann 23. desember og má kynna sér þær á vef Stjórnarráðsins með því að smella hér. Hér að neðan má sjá hvaða áhrif þetta mun hafa á þjónustu sveitarfélagsins.
22.12.2021
Hertar sóttvarnir 23.desember – áhrif á þjónustu Fjarðabyggðar
- Bæjarskrifstofa: Afgreiðsla bæjarskrifstofunnar verður áfram opin, en fjöldi starfsmanna á staðnum verður takmarkaður og hluti starfsmanna dreifðir á aðrar starfsstöðvar. Þess vegna er fólk hvatt til að nýta sér rafrænar lausnir til samskipta s.s. með símtölum í síma 470 9000, í gegnum íbúagátt, með tölvupósti, eða í gegnum ábendingakerfið á vef Fjarðabyggðar.
- Sundlaugar og íþróttamannvirki: Sundlaugar og líkamsræktarstöðvar verða áfram opnar en þeim er heimilt að taka við 50%af leyfðum hámarksfjölda skv. starfsleyfi.
- Grunnskólar: Þær aðgerðir sem kynntar hafa verið munu ekki hafa áhrif á starfsemi grunnskóla umfram það sem nú er eftir að þeir hefjast aftur að loknu jólafríi þann 4. janúar.
- Leikskólar: Þær aðgerðir sem kynntar hafa verið munu ekki hafa áhrif á starfsemi leikskóla umfram það sem nú er. Þeir foreldar sem eiga þess kost eru engu að síður hvattir til að hafa börn sína heima milli jóla og nýjárs, og létta þannig álagi af skólunun.
Verði frekari breytingar á þjónustu Fjarðabyggðar verður það tilkynnt hér á vefnum og á Facebook síðu Fjarðabyggðar.