Föstudaginn 18. desember sl. þurfti að rýma hús á Eskifirði vegna hugsanlegrar hættu á skriðuföllum. Mikið hafði rignt dagana á undan og voru eftirlitsmenn Veðurstofunnar með virkt eftirlit þessa daga vegna hættu á skriðuföllum og vatnavaxta. Á föstudeginum verða þeir varir við sprungumyndun á gamla Oddsskarðsveginum og sjá er líður á daginn að sprungurnar fara stækkandi.
Í kjölfar rýmingar á Eskifirði um liðna helgi
Vegna þessa var farið í að færa hluta byggðarinnar á Eskifirði á hættustig og í framhaldinu voru rýmd hús við Hátún, Helgafell, Lambeyrarbraut, Hólsveg og Strandgötu. Um leið setti Rauði Krossinn upp fjöldahjálparstöð í Kirkjunni á Eskifirði og þar fór fram skráning íbúa sem yfirgefa þurftu heimili sín. Jafnframt var haft samband við Verkmenntaskóla Austurlands og skólameistari beðinn um að gera heimavist skólans klára ef þörf væri á gistirými fyrir íbúa sem rýma þyrftu hús sín. Brugðust starfsmenn skólans þegar við og var vistin gerð klár en ekki kom þó til þess að hún yrði notuð. Að öðru leyti gekk rýmingin vel og var henni lokið á um klukkutíma.
Um leið og birti til, laugardaginn 19. desember, var tekið til við að skoða aðstæður og koma upp nauðsynlegum búnaði á Oddsskarðsvegi til þess að kanna betur hvað þar væri að gerast. Tilkynningar voru með reglulegum hætti sendar til íbúa til að upplýsa um stöðuna, en seinni partinn á laugardeginum var ákveðið að rýmingunni skyldi haldið áfram, meðan sérfræðingar kynntu sér þau gögn sem fyrir lágu. Rýmingunni var síðan aflétt á sunnudag enda hafði þá ekki mælst nein hreyfing á svæðinu þann dag og lítil á laugardeginum, vatnsþrýstingur hafði þá einnig minnkað og ekki lengur talin hætta á flóði á þessu svæði. Síðan þá hafa engar hreyfingar verið á svæðinu en fylgst verður vel með því áfram.
Aðgerð eins og sú sem fram fór á Eskifirði um helgina, er aldrei hafin yfir gagnrýni og að lokinni hverri aðgerð er nauðsynlegt að sitjast niður og greina það sem betur má fara. Gagnrýni hefur komið fram á að upplýsingaflæði til íbúa hafi ekki verið nægjanlegt. Allar svona ábendingar eru ræddar gaumgæfilega við fulltrúa í aðgerðarstjórn og þannig reynt að finna hvernig hægt er að gera hlutina enn betur. Mín skoðun er sú að þessi aðgerð hafi heppnast vel að flestu leyti, en að sjálfsögðu er alltaf eitthvað sem betur má fara. Á góðum íbúafundi á Eskifirði þriðjudagskvöldið 22.desember, komu fram gagnlegar upplýsingar og ábendingar frá íbúum, sem verða að sjálfsögðu skoðaðar nánar.
Nú tekur við eftirfylgni en vinna þarf að því að skoða nánar hvað er að gerast á svæðinu. Nú þegar hefur verið sett upp öflugt eftirlit, Veðurstofan fylgist grannt með gangi mála og mun sjá um að gera frekari nauðsynlegar rannsóknir á svæðinu. Ég hef auk þess átt samtöl við ráðherra úr ríkisstjórn og lagt á það áherslu að nýtt hættumat sé nauðsynlegt fyrir Eskifjörð, sem og önnur svæði á landinu. Auk þess hef ég ítrekað þá kröfu sem Fjarðabyggð hefur lengi haldið á lofti, að nauðsynlegt sé að tryggja að fjármagn sé nægt til að klára allar ofanflóðavarnir á Íslandi og að samfella sé í þeim framkvæmdum. Samtölin við ráðherrana voru góð og við munum í framhaldinu áfram eiga um þetta viðræður.
Mig langar að fá að koma hér á framfæri þökkum til allra þeirra sem komu að málinu um helgina, viðbragðsaðila, starfsfólks Fjarðabyggðar og ekki síst íbúa á Eskifirði, sem stóðu sig afar vel í flóknum aðstæðum og tóku öllu af miklu æðruleysi eins og við var að búast.
Sendi svo ykkur öllum mínar bestu jóla- og nýárskveðjur, með von um að þið hafið það gott um hátíðarnar.
Jón Björn Hákonarson
bæjarstjóri