Í leikskólum sveitarfélagsins fer fram metnaðarfullt starf fyrir börn frá eins árs aldri þar sem stuðst er við aðferðir hugmyndafræðinnar Uppeldi til ábyrgðar.
Í leikskólanum - Eyrarvellir
Meginatriði hennar er að kenna börnum sjálfsaga, sjálfsstjórn og ýta undir sjálfstraust.
Á leikskólanum Eyrarvöllum í Neskaupstað er námið samþætt og fer fram í leik, umönnun, samskiptum, skapandi starfi og hugsun þar sem hverju barni er mætt þar sem það er statt í námi og þroska. Börn eiga að fá að njóta sín sem einstaklingar sem og læra að vinna saman, eignast vini og öðlast heilbrigða samkennd. Unnið er út frá hugmyndafræði John Dewey og að hluta til hugmyndafræði Howard Gardner. Því trúin í starfinu er sú að börn læri í gegnum eigin reynslu og að allir geti eitthvað en enginn geti allt. Að þekkja styrk sinn er mikilvægara en að þekkja vanmátt sinn og því er nauðsynlegt að hvert barn fái tækifæri til þess að efla sig í leikskólanum. Frjáls leikur skipar stóran sess, efniviður er fjölbreyttur og listsköpun og myndskráning er stór þáttur í starfi leikskólans.
Segja má að stefna Eyrarvalla endurspeglist í einkunnarorðum leikskólans: Nám - Leikur - Gleði. Börnin læra í gegnum leik og þeirra styrkleika. Þegar unnið er að þemum í gegnum alla námsþætti leikskólans er komið til móts við þarfir allra barna og veitir það bæði börnum og kennurum mikla gleði. Starfið endurspeglast vel í myndunum sem fylgja hérna með.
Í vor fór allt starfsfólk leikskólans á Lubba námskeið og mun Lubbi verða að fullu innleiddur í leikskólann í haust. Það eru komnir Lubbar á allar deildir og er hann strax orðinn mikill vinur barnanna. Hugmyndafræðin um Lubba byggir á bókinni Lubbi finnur málbein sem er hugsuð til málörvunar og hljóðanáms fyrir börn.