Íbúafundurinn var haldinn í Nesskóla í Neskaupstað, mánudaginn 6. mars kl. 20:00. Kynntar voru fyrirhugaðar framkvæmdir vegna ofanflóðavarna undir Nes- og Bakkagiljum.
Á fundinn mættu Hafsteinn Pálsson frá Ofanflóðasjóði, Hallvarður Vignisson frá verkfræðistofunni HNIT og Þórhildur Þórhallsdóttir frá Landmótun. Fundarstjóri var Jón Björn Hákonarson bæjarstjóri.
Íbúafundur í Nesskóla vegna fyrirhugaðra framkvæmda á ofanflóðavörnum
Varnarvirkin fyrir neðan Nesgil og Bakkagil eru nokkuð umfangsmikil og ná yfir um 24 ha. Það er um tvöfalt stærra svæði en varnarvirki undir Urðarbotnum sem nýlokið er að reisa. Fyrir neðan Nes- og Bakkagil stendur til að reisa einn þvergarð, 820 m langan og með virka hæð 21,5 m (mælt frá vinnuvegi fjallsmegin við garðinn). Fyrir ofan þvergarðinn munu rísa 2 raðir af 8-10 m háum keilum, 11 stk í neðri röð og 9 stk í þeirri efri. Bæði þvergarður og keilur eru byggð upp með brattri hlið sem snýr að fjalli og er styrkt með stálgrindum fylltum með grjóti á sama hátt og þau varnarvirki sem fyrir eru ofan við byggðina. Þær hliðar sem snúa að byggð eru ekki eins brattar og þar er lögð áhersla á uppgræðslu með grasi og síðar trjágróðri.
Varnarvirkin liggja austan við núverandi varnarvirki fyrir neðan Drangagil og Hjallaskóg og að mörkum Fólkvangs Neskaupstaðar. Fyrir neðan þvergarðinn eru göturnar Víðimýri, Starmýri, Hrafnsmýri, Gauksmýri, Valsmýri, Nesbakki, Gilsbakki og Marbakki. Þvergarðurinn verður næst húsum við botn Hrafnsmýrar þar sem jaðar garðs verður í um 30 m fjarlægð frá innstu húsum. Við Nesbakka 16 og Gilsbakka 13 og 14 verður jaðar garðsins í um 50-60 m fjarlægð. Önnur hús liggja fjær.
Keiluraðirnar ofan við þvergarðinn munu ganga að hluta inn í Hjallaskóg. Lögð verður áhersla á að verja trjágróður eins og hægt er og settar út flagglínur á meðan á framkvæmdum stendur.
Frá þvergarði og keilum verður gerð vatnsrás sem mun leið vatn út í Stóra Læk á mörkum Fólkvangsins. Vatnsrásinni er ætlað að taka við þegar vatn eykst í núverandi lækjum vegna rigninga og leysinga, en áfram verður rennsli í lækjum sem renna í gegnum byggðina. Því rennsli verður stýrt með vatnrásum og lokunum á bak við varnarvirkin.
Austan við Drangagilsgarðinn er vegur sem hefur það margþætta hlutverk að vera aðkomuvegur að Hjallaskógi, þjónustuvegur fyrir Drangagilsvarnarvirkin og vegur að tjaldsvæði og strandblakvelli. Fyrirhuguð varnarvirki undir Nes- og Bakkgili munu fara yfir veginn og tjaldsvæðið og blakvöllinn. Ekki hefur enn verið fundinn nýr staður fyrir tjaldsvæði og blakvöll, en gert er ráð fyrir að því verði lokið áður en framkvæmdir við varnarvirki hefjast. Til að þjónusta skógræktina að loknum framkvæmdum verður hægt að fara um vinnuveg á bak við Nes- og Bakkagilsgarð.
Aðkomuvegir að framkvæmdum fyrir neðan Nes- og Bakkagil munu aðallega vera um götu sem liggur austan við Marbakka, Móabakka. Sú gata tilheyrir skipulagðri íbúðabyggð á þessu svæði og þar mun verða þjónustuaðgengi að görðum úr austri eftir að framkvæmdum lýkur. Allir þvergarðar munu hafa þjónustuveg fjallsmegin sem tengjast innbyrðir svo hægt verði að komast að þeim í viðhald. Þjónustuvegirnir eru gerðir úr þeim vinnuvegum sem verða til á framkvæmdatíma og eru jafnframt hluti af stígakerfi mannvirkjanna.
Þegar varnarmannvirki fyrir neðan Nes- og Bakkagil hafa verið reist, verður komið að ákveðnum endapunkti í framkvæmdum varna í Neskaupsstað þar sem ekki er fyrirhugað að reisa fleiri mannvirki vegna ofanflóða á þessu svæði. Þá verða risnir 4 þvergarðar fyrir ofan byggðina og hver garður verður með tvöfalda keiluröð þar fyrir ofan. Svæðið mun verða sérstætt að því leyti að þvergarðar munu liggja eftir endilangri byggðinni. Manngert útivistarsvæði í skjóli “tröllslegra” mannvirkja ætti sannarlega að verða aðdráttarafl fyrir Neskaupstað.
Það er mikilvægt að horfa á þá heildarmynd sem mannvirkin ofan við byggðina munu mynda. Stígakerfi með lýsingu og áningarstöðum er sérlega mikilvægt í þessu samhengi, svo og uppgræðsla garðanna og skógrækt í jöðrum framkvæmda. Stígakerfið mun bjóða upp á breytilega möguleika á gönguleiðum, miserfiðum og mislöngum. Hver og ein framkvæmd verður hluti af útivistarsvæði Neskaupsstaðar sem tengir byggðina við náttúruna fyrir ofan og einnig við Fólkvanginn austan megin við bæinn. Útivistarsvæði sem þjónar íbúum bæjarins og verður þar með jákvætt innslag í útivist og lýðheilsu bæjarbúa.